Tónlistarfélagið [félagsskapur] (1932-)

Tónlistarfélagið í Reykjavík (Tónlistarfélag Reykjavíkur) hefur frá árinu 1932 gegnt risastóru hlutverki í íslenskri tónlist, einkum framan af en tónlistarlíf á Íslandi væri án nokkurs vafa með allt öðrum hætti ef félagsins hefði ekki notið við.

Tónlistarfélagið var stofnað vorið 1932 af tólf mönnum sem höfðu fyrst og fremst áhuga á tónlist og á eflingu íslensks tónlistarlífs en það var þá í eins konar kreppu.

Mikil tónlistarvakning hafði verið í kringum alþingishátíðina 1930 og þá höfðu meðlimir úr Hljómsveit Reykjavíkur stofnað Tónlistarskólann í Reykjavík, en þarna tveimur árum síðar sáu menn ekki fram á áframhaldandi rekstrargrundvöll og þar komu tólfmenningarnir (sem stundum voru nefndir postularnir) til sögunnar. Þetta voru prentarar, lögfræðingar, bókarar og kaupmenn svo dæmi séu tekin en meðal þeirra stofnenda voru Ragnar í Smára, Sigurður Markan söngvari og Þorvaldur Thoroddsen.

Félagarnir tólf ráku Tónlistarfélagið með fjárstyrkjum en einnig komu Reykjavíkurborg og íslenska ríkið að rekstrinum með styrkjum, þá keypti Ríkisútvarpið einnig tónleika af félaginu.

Tónlistarfélagið tók við rekstri tónlistarskólans og einnig Hljómsveit Reykjavíkur en sú sveit var einn af undanförum Sinfóníuhljómsveit Reykjavíkur sem varð síðan að Sinfóníuhljómsveit Íslands árið 1950. Þá var einnig stofnaður blandaður kór sem hlaut nafnið Samkór Tónlistarfélagsins en var aldrei kallaður neitt annað en Tónlistarfélagskórinn, hann starfaði í nokkur ár á fimmta áratugnum og gaf út fjölda platna.

Félagið varð fljótlega fjölmennt og því öflugt í starfi sínu en félagsmenn greiddu félagsgjöld, um sextán hundruð manns voru t.a.m. skráðir í félagið um 1960. Einnig hafði félagið tekjur af tónleikum en í gegnum tíðina hefur það staðið fyrir mörg hundruð tónlistartengdum uppákomum í formi tónleika, uppfærslna á óperum og óperettum, og rekstri kvikmyndahúsa en það hóf rekstur bíós í Trípólíbragganum vestur á Melum 1947, kom að byggingu Austurbæjarbíós um svipað leyti og byggði síðan Tónabíó í Skipholtinu, þar sem nú er Vinabær. Þar er tónlistarskólinn enn til húsa.

Annars stóð Tónlistarfélagið lengi í húsnæðisskorti, framan af fékk það aðstöðu í Hljómskálanum en síðar í hálfbyggðu Þjóðleikhúsinu, við hernám Breta vorið 1940 var sú bygging hins vegar tekin undir birgðageymslu fyrir  herinn og í framhaldi af því kom í fyrsta skipti upp fyrir alvöru umræða um byggingu tónlistarhúss á Íslandi. Eins og kunnugt er varð sá draumur ekki að veruleika fyrr en með opnun Hörpu sumarið 2011 en lengi stóð til að Tónlistarfélagið stæði að byggingu þess, m.a. hafði það fengið úthlutaða lóð á mótum Grensásvegar og Suðurlandsbrautar til þess. Félagið byggði þó hús undir tónlistarskólann við Skipholt sem fyrr segir.

Tónlistarfélagið gegndi margs konar hlutverki í íslenskri tónlist eins og kemur fram hér að framan og er óvíst hver staða hennar væri án aðkomu félagsins, auk þess að vera bakhjarl Tónlistarskólans í Reykjavík, Hljómsveitar Reykjavíkur og síðar Sinfóníuhljómsveitarinnar, hélt félagið utan um ýmis konar tónleikahald, flutti einnig inn fjöldann allan af erlendu tónlistarfólki, stóð í bóka- og tímaritaútgáfu um tíma og margt annað.

Hin síðari ár hefur hlutverk Tónlistarfélagsins einkum verið tengt rekstri tónlistarskólans.