Á fyrsta áratug þessarar aldar og fram á þann annan komu út á vegum Senu nokkrar plötur í safnplöturöð sem nefnd var 100-serían. Það sem var sérstætt við þessar safnplötur var að um var að ræða safnplötupakka eða -öskjur með fimm og sex diskum, alls hundrað lög í hverjum pakka. Hver safnplata hafði ákveðið þema og bar titil eins og 100 íslenskir sumarsmellir, 100 íslensk í ferðalagið, 100 Eurovision lög, 100 íslensk 80‘s lög og þar fram eftir götunum, einnig höfðu plötur innan hvers titils stundum mismunandi þemu. Alls komu út fjórtán plötur í seríunni á árunum 2006 til 2011, margar þeirra seldust ágætlega og t.a.m. mun 100 íslensk jólalög (2006) hafa selst í 17-18 þúsund eintökum.














































