Blástakkatríóið (1939-41)

Blástakkatríóið1

Blástakkatríóið

Blástakkatríóið (einnig kallað Blástakkar) er að öllum líkindum fyrsta svokallaða þjóðlagatríó Íslands þótt ekki einskorðuðu þeir sig við þjóðlög.

Tríóið sem skipað var fyrrum nemendum úr Verzlunarskólanum kom fyrst fram 1939 og starfaði um tveggja ára skeið, meðlimir þess voru Ólafur Beinteinsson, Gunnar Ásgeirsson og Sveinn Björnsson en þeir Gunnar og Sveinn urðu síðar kunnir bifreiðainnflytjendur. Allir sungu þeir og léku undir á gítara og önnur hljóðfæri svo sem mandólín og balalæku.

Blástakkatríóið kom fram víða á skemmtunum ásamt öðrum skemmtikröftum en héldu líklega ekki sjálfstæða tónleika sjálfir, einnig komu þeir fram í útvarpi í nokkur skipti.

Þeir gerðu lagið um Pálínu vinsælt þótt aldrei spiluðu þeir inn á plötu, lagið var sænskt en þeir Sveinn og Gunnar sömdu íslenskan texta við það sem Savanna tríóið gerði ódauðlegt aldarfjórðungi síðar í útgáfu sinni.