Kling klang kvintett (1936-45)

Kling klang með Árna Björnssyni undirleikara

Kling klang með Árna Björnssyni undirleikara

Kling klang kvintettinn naut mikilla vinsælda á stríðsárunum og hefðu vinsældir hans eflaust orðið á borð við MA-kvartettsins hefðu þeir gefið út plötur. Úr því varð þó aldrei.

Kling klang sem var söngkvintett, var stofnaður 1936 af nokkrum félögum úr Kátum félögum sem var eins konar uppeldiskór fyrir Karlakórinn Fóstbræður.
Lengst af voru félagarnir fimm þeir Guðmundur Sigurðsson, Björgúlfur Baldursson, Jón Guðbjartsson, Gísli Pálsson og Ólafur Beinteinsson en kvintettinn gekk þó í gegnum einhverjar mannabreytingar, Björgúlfur hafði t.a.m. komið inn fyrir Bjarna Halldórsson og einnig hafði Gísli Kjærnested einhvern tímann verið í Kling klang. Carl Billich raddsetti fyrir hópinn í upphafi og var undirleikari þeirra framan af.

Starfið mun hafa verið nokkuð líflegt til að byrja með en þegar Bretar hernámu landið vorið 1940 var Carl undirleikari handtekinn af breskum heryfirvöldum og upp frá því söng kvintettinn sjaldnar, Ólafur Beinteinsson einn söngmanna tók þá að sér undirspilið, lék undir á gítar.

1942 fóru þeir að koma aftur fram opinberlega en það var þó ekki fyrr en 1944 sem þeir héldu sjálfstæða tónleika, þá við miklar og endurteknar vinsældir fyrir fullum húsum. Árni Björnsson píanóleikari var þá orðinn undirleikari kvintettsins. Kling klang var hvað öflugastur á þessum tíma, söng víða um land og fór m.a. í söngferð um Norðurland. Þeir sungu einnig í útvarpið og er söngur þeirra varðveittur á lakkplötum þar

Kling klang söng vinsæl sönglög en einnig frumsamin lög Árna, oft við texta Guðmundar Sigurðssonar eins meðlima hópsins. Hann átti auðvelt með að semja gamanvísur sem hentuðu ágætlega kvintettnum en þeir voru léttir í lund í söng sínum.

Kling klang kvintettinn starfaði þar til í stríðslok, þá kom los á hópinn og þeir hættu störfum. Síðustu mánuðina lék Jónatan Ólafsson undir hjá þeim.

Söng kvintettsins má heyra á safnplötunni Söngkvartettar: útvarpsperlur, sem Ríkisútvarpið gaf út 2002 og hafði að geyma upptökur úr safni stofnunarinnar.