
Dúkkulísurnar 1984
Kvennahljómsveitin Dúkkulísur(nar) frá Egilsstöðum starfaði á árunum 1982-87 en hefur verið endurvakin öðru hvoru síðan. Sveitin var stofnuð haustið 1982 í kjölfar vinsælda Grýlnanna en nokkur vakning hafði þá verið meðal kvenna til að stofna hljómsveitir, og má þar nefna sveitir eins og Sokkabandið og Jelly systur sem störfuðu um svipað leyti.
Sveitin var lengst af skipuð þeim Guðbjörgu Pálsdóttur trommuleikara, Hildi Viggósdóttur hljómborðsleikara, Erlu Ingadóttur bassaleikara, Erlu Ragnarsdóttur söngkonu (síðar útvarpskonu) og Grétu Jónu Sigurjónsdóttur gítarleikara (Gvendólínurnar o.fl.), sem kom síðust þeirra inn í bandið (vorið 1983) en hún tók við af Þórunni Víðisdóttur sem var ein stofnmeðlima
Dúkkulísurnar tóku þátt í hljómsveitakeppni um verslunarmannahelgina í Atlavík 1983 og lentu þar í öðru sæti á eftir hljómsveitinni Aþenu, í kjölfarið fóru þær í Músíktilraunir Tónabæjar sama haust og gerðu sér lítið fyrir og sigruðu þær en úrslitakvöldið fór fram á Kjarvalsstöðum.
Hluti af sigurlaununum voru hljóðverstímar og þeir voru vel nýttir til að vinna að fyrstu plötu sveitarinnar, sem kom út sumarið eftir (1984). Platan sem hlaut einfaldlega nafnið Dúkkulísur sló í gegn og lögin Silent love, Skítt með það og slagarinn um Pamelu (í Dallas þáttunum) slógu í gegn og fengu mikla spilun á Rás 2, sem þá var tiltölulega nýbyrjuð með vinsældalista sinn en þar skoruðu lögin hátt.
Tómas Tómasson Stuðmaður stjórnaði upptökum á plötunni en Gunnar Smári Helgason og Sigurður Bjóla tóku hana upp um vorið í Hljóðrita og Stemmu. Karl Erlingsson (Fásinna o.fl) var þeim Dúkkulísum innan handar við útsetningar en hann samdi ennfremur fjögur af sex lögum plötunnar. Dúkkulísurnar sáu sjálfar um textagerðina.
Platan fékk mjög góða dóma í Morgunblaðinu og frábæra dóma í DV þannig að ekki var hægt að segja annað en að viðtökurnar hefðu verið góðar við poppi þeirra Dúkkulísna.

Dúkkulísurnar
Þetta ár tók Harpa Þórðardóttir (Ópera o.fl.) við hljómborðinu af Hildi Viggósdóttur en þegar hér var komið höfðu þær flust til Reykjavíkur til að anna eftirspurninni en þær spiluðu mikið og voru áberandi í tónlistarlífinu víða um land, þær spiluðu m.a. á frægri verslunarmannahelgarhátíð í Atlavík ´84 þegar bítillinn Ringo Starr heiðraði samkomuna með nærveru sinni.
Sveitin hamraði járnið meðan það var heitt og hóf að vinna að annarri plötu sinni (Í léttum leik) sem upphaflega átti að koma út fyrir jólin 1985, henni seinkaði þó og kom ekki út fyrr en árið eftir og hlaut einnig ágætar viðtökur þótt þær væru ekki í líkingu við þá fyrri. Hún fékk t.a.m. ágæta dóma í DV.
Platan hét Í léttum leik og var níu laga en lagið um Svart-hvítu hetjuna varð það vinsælasta af henni og er líklega það lag sem lifað hefur lengst af lögum sveitarinnar, löngu orðið sígilt.
Dúkkulísurnar starfaði ekki lengi eftir þessa aðra plötu sína en þær störfuðu saman fram í ársbyrjun ársins 1987. Þær áttu þó eftir að koma saman nokkrum sinnum, t.a.m. í tilefni af fimmtíu ára afmælis Egilsstaðakaupstaðar 1997 og sendi frá sér lag árið 2004. Sveitin kom síðan aftur saman 2007 og spilaði nokkuð en þá var hún skipuð þeim Guðbjörgu, Grétu, Erlunum báðum, Hörpu, Hildi og Öddu Maríu Jóhannsdóttur slagverksleikara. Þá kom út safnplata með lögum sveitarinnar en hún heitir Dúkkulísur 25, enda þá tuttugu og fimm ár síðan sveitin var stofnuð. Síðan þá hefur sveitin reglulega sent frá sér efni þótt ekki hafi hún eða lögin farið hátt.
Þær stöllur höfðu þó eitthvað starfað við tónlist í millitíðinni, t.d. hafði Harpa átt Dúkkulísulegt lag í Landslagskeppninni 1992 og einnig höfðu þær Erla Ragnars og Harpa átt lag undir nafninu Þær tvær á safnplötunni Hitt og þetta (1990).
Sveitin hefur ennfremur verið tíður gestur á safnplötum í gegnum tíðina og má þar nefna plötur eins og Fyrstu árin (1991), Í laufskjóli greina (1997), Óskalögin 6 (2002), Pottþétt 80´s (2001), Stjörnur (1984), Svona er sumarið 2004 (2004), 100 íslensk 80´s lög (2007), KR platan (2000) og Stelpurokk (1997)