Gramm [útgáfufyrirtæki] (1981-89)

Grammið logo

Lógó Grammsins

Útgáfufyrirtækið Gramm (oft nefnt Grammið í daglegu tali) starfaði á árunum 1981-88, reyndar var samnefnd plötubúð opin eitthvað lengur, fram á 1989.

Grammið var stofnað vorið 1981, upphaflega til að gefa út efni Purrks pillnikks sem var þá ein af hljómsveitunum sem leiddi hina síðbúnu pönkbyltingu sem gekk yfir Ísland um og upp úr 1980, nokkrum árum síðar en í löndunum í kringum okkur.

Stofnendur fyrirtækisins voru þau Ásmundur Jónsson (gjarnan nefndur Ási í Gramminu), Dóra Jónsdóttir, Björn Valdimarsson og Einar Örn Benediktsson (söngvari Purrks pillnikks).

Fyrirtækið sem fyrst og fremst einbeitti sér að útgáfu og dreifingu platna sinna, annaðist líka tónleikahald, flutti inn fjölmargar erlendar hljómsveitir og tónlistarmenn á jaðarkantinum, auk þess að reka plötuverslun með óháðu tónlistarúrvali. Það má því með sanni segja að Grammið hafi átt sinn þátt í því að skerpa á þeim andstæðum, þeirri gjá, sem þá var að myndast (einkum milli kynslóða) milli „mainstream“ tónlistaráhugafólksins og pönk/rokkaranna í kjölfar áðurnefndrar pönkbylgju.

Grammið

Grammið

Fjölmargir listamenn gáfu út á merki Grammsins, Purrkur pillnikk fyrst eins og áður sagði en síðar sveitir og tónlistarmenn eins og Megas, Kukl, Dirty Dan project, Bubbi Morthens, Lárus Grímsson, Sveinbjörn Beinteinsson og fleiri, eins og sést af upptalningu var fjölbreytnin mikil, allt frá rímnakveðskap til pönks. Hagnaður af útgáfunni var sjaldnast enda var aldrei til þess ætlast, fyrst og fremst að koma áhugaverðri tónlist á framfæri, þar var skilyrði að þeim þætti sjálfum tónlistin skemmtileg. Grammið reyndi ennfremur að koma sínum listamönnum á framfæri erlendis, með dreifingu útgáfu sinnar einkum í Bretlandi. Þess má geta að fyrsta íslenska geisladiskaútgáfan hérlendis var á vegum Grammsins, það var platan Frelsi til sölu með Bubba Morthens.

Þegar fór að þrengja verulega að fyrirtækinu 1988, var nýtt útgáfufyrirtæki, Geisli, stofnað og tók það yfir katalóg Grammsins. Það varð þó ekki langlíft og saga Grammsins varð ekki lengri, utan þess að plötubúðin var rekin áfram um skeið áður en henni var einnig lokað. Upphaflega hafði Grammið verið til húsa á Vesturgötu 53, haustið 1983 flutti það á Hverfisgötu 50 og ári síðar á Laugaveg 17 þar sem það var til loka 1989.

Útgáfufyrirtækið Smekkleysa var síðar stofnuð af sömu aðilum að hluta, og er eins konar afkvæmi Grammsins.