Purrkur Pillnikk (1981-82)

Purrkur Pillnikk2

Purrkur Pillnikk

Purrkur Pillnikk er klárlega ein allra afkastamesta hljómsveit íslenskrar tónlistarsögu en hún starfaði í tæplega eitt og hálft ár og gaf út á þeim tíma fjórar plötur með samtals fjörutíu lögum, þess má geta að sveitin starfaði langt frá því samfleytt þann tíma.

Purrkurinn var stofnaður þann 8. mars 1981 í því skyni að leika á tónleikum í Menntaskólanum við Hamrahlíð kvöldið eftir en þeir félagar voru nemar við skólann. Á fjórum tímum samdi sveitin og æfði tíu laga prógram sem hún flutti síðan á tónleikunum og þá var ekki aftur snúið og við tók mikil og hröð rússíbanareið.

Meðlimir Purrksins voru þeir Einar Örn Benediktsson söngvari sem oft hefur verið kallaður fyrsti íslenski pönkarinn, Bragi Ólafsson bassaleikari, Friðrik Erlingsson gítarleikari og Ásgeir Bragason trommuleikari. Þeir voru allir fæddir 1962 nema Ásgeir sem var þremur árum eldri. Tónlistarkunnátta þeirra félaga var af skornum skammti og til að mynda hafði Ásgeir aldrei leikið á trommur þegar sveitin var stofnuð,  hann var þó fljótur að ná tökum á trommusettinu.

Annars var hljóðfæraskipanin ákveðin á staðnum og þar sem Einar Örn þótti ekki hæfur á neitt hljóðfæri var hann látinn syngja, reyndar er varla hægt að tala um söng af hans hálfu en raddbeiting hans þótti mjög sérstök og talaði hann eða öskraði miklu frekar en að syngja.

Tónlist sveitarinnar var illskilgreinanleg, að vísu þótti enginn vafi á að um pönktónlist var að ræða en hvað nánari skilgreiningu snerti þá talaði einn poppskríbentanna um „manískt nýpönk með jass- og fönkáhrifum“ – og það lýsir tónlistinni e.t.v. best ásamt hugtakinu spilagleði.

Purrkur Pillnikk

Purrkurinn á veggspjaldi Vikunnar

Nafn Purrks Pillnikks kom úr tveimur áttum, annars vegar var um að ræða nafnorðið purkur, sbr. svefnpurkur, hins vegar var það nafn hins þýsk-argentíska skákmeistara Herman Pilnik sem skírskotað var einnig til.

Segja má að sveitin hafi eins og Q4U verið eins konar afsprengi eða afkvæmi Utangarðsmanna sem þá voru á hátindi frægðar sinnar, Einar Örn var umboðsmaður Utangarðsmanna og rótarar sveitarinnar mynduðu meðal annarra Q4U.

Sem fyrr segir samdi Purrkurinn tíu lög og flutti í Norðurkjallara MH kvöldið eftir að sveitin var stofnuð, og ekki liðu nema þrjár vikur þar til farið var í hljóðver og lögin tekin upp. Sveitin hafði bókað níu tíma í hljóðveri en þegar til kom þurftu þeir félagar ekki allan tímann til að taka upp og hljóðblanda lögin tíu.

Rétt rúmlega mánuði síðar kom platan út í fimmtán hundruð eintaka upplagi og kallaðist Tilf, en Einar Örn stofnaði hljómplötuútgáfuna Gramm ásamt þremur öðrum aðilum til að gefa hana út, plötunni var einnig dreift erlendis. Grammið átti síðan eftir að starfa um nokkurra ára skeið.

Það sem var kannski einna sérstæðast við útgáfu plötunnar var að hún var tíu laga en samt sjö tommu smáskífa og líklega er leitun að slíkri plötu hérlendis og jafnvel þótt víðar væri leitað, lögin voru öll hröð og stutt með ágengum textum sem Einar Örn hamraði ögrandi á hlustendur. Strax á þessari plötu kemur fram lykilmottó sveitarinnar í laginu Þreyta þegar hann kyrjar: „málið er ekki hvað maður getur heldur hvað maður gerir“, þau orð urðu að einkennisorðum kvikmyndarinnar Rokk í Reykjavík síðar meir.

Tilf fékk prýðilegar viðtökur gagnrýnenda þótt ekki hafi hún hlotið náð almennings, hún fékk t.d. ágæta dóma í Dagblaðinu, Tímanum og Poppbók Jens Guð og mjög góða í Helgarpóstinum og Morgunblaðinu.

Purrkur Pillnikk 1982

Purrkurinn 1982

Sveitin hafði fengið hljóðfæri Utangarðsmanna lánuð til að taka með í hljóðverið enda átti Purrkurinn aldrei að verða neitt meira, strax og platan kom út varð t.d. ljóst að henni yrði ekki fylgt eftir þar sem Einar umboðsmaður Utangarðsmanna myndi fylgja þeirri sveit í tónleikaferð erlendis og þ.a.l. myndi Purrkurinn fara í nokkurra mánaða pásu.

Þannig heyrðist ekkert frá sveitinni um tíma en hún kom svo skyndilega fram á sjónarsviðið í september og hafði þá tekið upp stóra plötu í London á fimmtíu tímum um sumarið, lögin voru að einhverju leyti samin í hljóðverinu.

Sú plata kom út í nóvember 1981 og hét Ekki enn en allur texti á plötuumslagi var ritaður með hljóðritunartáknum (sem sýnir framburð) og er varla læs nema þeim sem eru menntaðir í hljóðfræðum, þannig var titill plötunnar táknaður [ehgjI en:] og önnur tákn á umslaginu fóru fyrir ofan garð og neðan hjá þeim sem lásu.

Tónlistin hlaut þó góðar viðtökur og almennt fékk platan prýðisdóma í Dagblaðinu, Morgunblaðinu, Tímanum, tímaritinu TT og Poppbókinni, gagnrýnendur höfðu nokkuð á orði hversu miklar framfarir Ásgeir hefði tekið á trommurnar í ljósi þess að hann var algjör byrjandi í trommuleik.

Nokkuð var lagt í kynningu á plötunni og gerði m.a. Friðrik Þór Friðriksson sjónvarpsauglýsingu fyrir sveitina en platan átti eftir að seljast í um tvö þúsund eintökum.

Þegar Ekki enn var endurútgefin af Smekkleysu á geislaplötu árið 1993 var að finna í bæklingi hennar grein eftir Sjón (Sigurjón B. Sigurðsson) um textagerð Einars Arnar en hún hafði áður birst í Tímariti Máls og menninar (TMM 47/86). Í tilefni af útgáfu plötunnar var fjallað um hana í Pressunni og hlaut hún jákvæða gagnrýni þar.

Purrkur Pillnikk3

Við upptökur í London

Þótt Ekki enn hefði verið tekin upp um sumarið og platan komið út um miðjan nóvember kom sveitin ekki saman til að æfa og spila fyrr en þarna um haustið en þá lék hún m.a. með bresku sveitinni The Fall.

Ekki þurfti að bíða lengi eftir að Purrkurinn færi enn og aftur í hljóðver en sveitin tók upp næstu plötu í febrúar 1982 í stúdíói Stuðmanna, Grettisgati, og í kjölfarið var mikið að gera hjá sveitinni. Sveitin hafði hitað upp fyrir The Fall ásamt fleiri sveitum og úr varð að The Fall bauð þeim Purrks-liðum í tónleikaferð um Bretland um vorið.

Afraksturinn úr upptökunum, þrettán laga tvöfalt smáskífu-albúm, kom út á vordögum eða um svipað leyti og sveitin átti árs afmæli. Á þeim tíma hafði hún gefið út þrjár plötur með samtals fjörutíu lögum þrátt fyrir tvær fremur langar pásur, og aukinheldur haldið um fjörutíu tónleika hérlendis og erlendis.

Platan fékk titilinn Googooplex og fékk eins og fyrri plötur sveitarinnar glimrandi dóma, ágæta í Þjóðviljanum og mjög góða í Morgunblaðinu, DV og Poppbók Jens Guð.

Og hér var auðvitað ekki staðar numið heldur nýtti Purrkur Pillnikk dauða tíma á tónleikaferðalaginu í Bretlandi með The Fall til að taka upp fjögurra laga smáskífu. Platan, No time to think, kom út um sumarið 82 og varð síðasta hljóðversplata sveitarinnar, hún þykir almennt meðal tónlistarspekúlanta besta Purrks-platan enda hafði tónlistin nú slípast töluvert til og þróast frá fyrstu plötunni. Gagnrýnendur Þjóðviljans og Vikunnar gáfu henni mjög góða dóma og Morgunblaðsins og Helgarpóstsins frábæra enda þótti hún almennt vera meðal bestu platna ársins 1982.

En nú var í raun komið að leiðarlokum og um sumarið, um svipað leyti og No time to think var að koma út, var það gefið út að Purrkur Pillnikk væri að hætta. Meðlimir sveitarinnar voru sammála um að þarna væri réttur tímapunktur til þess, sveitin var á hátindi frægðar sinnar og þeir félagarnir orðnir þreyttir á hverjum öðrum og keyrslunni sem fylgdi því að vera í sveitinni. Og þegar Purrkur Pillnikk hafði spilað í hinsta sinn (á Melarokkshátíðinni í lok ágúst 82) höfðu þeir leikið saman sextíu og þrisvar sinnum opinberlega, auk fjörutíu og fjögurra laga sem þeir höfðu samið, æft, tekið upp og gefið út á fjórum plötum. Og það á innan við einu og hálfu ári.

En útgáfusögunni var þó ekki lokið, sveitin hafði verið dugleg að hljóðrita á tónleikum sínum allt frá upphafi og vorið eftir að hún hætti kom út tónleikaplatan Maskínan 8/3/81-28/8/82, gefin út af Gramminu. Á plötunni var, eins og titillinn gefur að finna, að finna tónleikaupptökur allt frá fyrstu uppákomunni í Norðurkjallara MH og allt til þeirrar síðustu á Melarokki, á þeim upptökum má glögglega heyra hvernig sveitin breyttist, bættist og þróaðist. Maskínan hlaut þó misjafnar undirtektir fjölmiðlanna, platan fékk fremur slaka dóma í tímaritinu Samúel en þokkalega í Poppbók Jens og enn betri í Helgarpóstinum, DV og Vikunni.

Purrkur Pillnikk átti eftir að koma saman aftur þrátt fyrir allt, haustið 1985 og reyndar aftur fyrir jólin 1993 þegar endurútgáfan af Ekki enn kom út en þá lék sveitin órafmagnað – hvernig sem það getur nú hafa hljómað.

Purrkur Pillnikk1

Purrkur Pillnikk á Laugaveginum að hætti Hljómsveitar Magnúsar Ingimarssonar

Tvöfalda safnplatan Í augum úti var gefin út af Smekkleysu 2001, á henni var að finna öll lög sveitarinnar nema lögin af plötunni Ekki enn, þá voru öll lög Purrks Pillniks komin á geislaplötur því Ekki enn hafði verið gefin út á geislaplötu 1993 sem fyrr segir. Í augum úti fékk mjög góða dóma í DV.

Tónlist Purrksins fékk að hljóma víðar en á eigin plötum því sveitin kom fram í kvikmynd Friðriks Þórs Friðrikssonar, Rokk í Reykjavík (1982) og á plötunni sem fylgdi í kjölfarið en einnig á safnplötunni Northens light playhouse (1982) sem gefin var út til að kynna íslenska rokktónlist, þar var hin tíu laga Tilf í heilu lagi, 1987 kom út önnur ámóta safnplata, Geyser: anthology of the Icelandic independent music scene of the eighties, sem hafði að geyma efni með sveitinni og 2001 var lag með sveitinni á plötu með tónlist úr kvikmyndinni Óskabörn þjóðarinnar.

Tónlist með sveitinni var einnig að finna á erlendum safnútgáfum s.s. Lasta-EP II (Finnland), World class punk (USA), Nobody‘s perfect  (Finnland), Delerium tremens nr. 4 (Svíþjóð), Pasażer #25 (Pólland), Where the wild things are – Teil IV (Þýskaland) og Killed by 7 inch #7 (Þýskaland).

Segja má að Purrkur Pillnikk hafi verið eins konar uppeldisstöð fyrir Sykurmolana en þeir Einar Örn, Friðrik og Bragi áttu allir eftir að vera í þeirri sveit, reyndar með viðkomu í nokkrum öðrum, Ásgeir var hins vegar lítið í tónlist eftir Purrksævintýrið. Þeir Friðrik og Bragi urðu síðar báðir þekktir rithöfundar en Einar Örn en ennþá viðloðandi tónlistarheiminn.

Þess má að lokum geta að reglulega kemur fram hljómsveit að nafni P.P. sem sérhæfir sig í tónlist Purrks Pillnikks. Þannig heiðraði einnig hljómsveitin Dys Purrkinn með því að gefa lag þeirra, Óvænt, út á plötu.

Efni á plötum