Sunnukórinn (1934-)

Sunnukórinn 1945

Sunnukórinn 1945

Sunnukórinn á Ísafirði er einn elsti starfandi blandaði kór landsins og hefur starfað samfleytt frá árinu 1934.

Kórinn var stofnaður að frumkvæði þriggja mektarmanna á Ísafirði, þeirra Jónasar Tómassonar tónskálds og organista, Sigurgeirs Sigurðssonar sóknarprests og síðar biskups og Elíasar J. Pálssonar kaupmanns snemma árs 1934 en þeir höfðu fyrst rætt um stofnun kórs um haustið á undan.
Upphaflega átti kórinn aðallega að vera kirkjukór en markmiðið með stofnun hans var ennfremur að efla sönglífið í Ísafjarðarbæ.

Nafn kórsins er þannig til komið að hann var stofnaður á sólardegi Ísfirðinga en það er sá dagur sem sólin sést fyrst koma yfir fjallgarðinn eftir dimmasta skammdegið ár hvert, af sama tilefni halda Ísfirðingar árlegt Sunnukórsball og hafa gert síðan kórinn var settur á laggirnar.

Jónas var sjálfur fyrst kórstjóri Sunnukórsins og stýrði honum allt til ársins 1948 þegar Ragnar H. Ragnar tók við en hann fluttist vestur sérstaklega til að taka við nýjum tónlistarskóla sem þá var nýstofnaður, Jónas stjórnaði þó áfram þeim hluta æfinga sem sneru að kirkjuhluta kórsins allt til 1961. Um tíma var Sigurður Birkis (síðar söngmálastjóri þjóðkirkjunnar) raddþjálfari kórsins og óx honum þá enn frekar ásmegin.

Kórinn fékkst við ýmis verkefni við kirkjuna og tónlistarlífið almennt á Ísafirði og um haustið 1948 flutti hann m.a. óperettuna Bláu kápuna við góðar orðstír og aðsókn, ári síðar fór Sunnukórinn síðan í sína fyrstu söngför erlendis þegar kórfélagar heimsóttu norðurlöndin en það áttu þeir eftir að gera aftur 1967. Þá hafði kórinn einnig sungið víða hér heima annars staðar en á heimaslóðum.

Ragnar H. Ragnar tók við kórnum haustið 1948 eins og fyrr segir en fjölskylda hans átti eftir að koma mikið við sögu kórsins næstu árin, börn hans Anna Áslaug (píanóleikari), Sigríður (síðar skólastjóri Tónlistarskólans á Ísafirði) og Hjálmar Helgi (síðar tónskáld og lektor Listaháskóla Íslands) léku öll undir söng kórsins á einhverjum tímapunkti, fyrst afar ung að árum, og átti Hjálmar reyndar eftir að taka við starfi föður síns við stjórn kórsins árið 1975 og gegndi því starfi til 1978. Sigríður dóttir Ragnars átti síðar eftir að giftast Jónasi Tómassyni hinum yngri (barnabarni Jónasar fyrsta stjórnandans) sem einnig stjórnaði Sunnukórnum, á árunum 1979-85.

Þannig má segja að kórstjórn Sunnukórsins hafi verið í höndum sama fólksins, fjölskyldna Jónasar Tómassonar eldri og Ragnars H. Ragnar (sem sameinuðust með hjónabandi Jónasar Tómassaron yngri og Sigríðar Ragnarsdóttur) um fimmtíu ára skeið á árunum 1934-85, utan þess að Kjartan Sigurjónsson organisti (faðir Sigurjóns Kjartanssonar tónlistarmanns og skemmtikraftar) stýrði honum veturinn 1978-79.

1968 kom út á vegum Fálkans „splitplata“ með Sunnukórnum og Karlakór Ísafjarðar, sem bar heitið Í faðmi blárra fjalla. Platan var gefin út í tilefni sjötugs afmælis Ragnars stjórnanda en hann hafði þá verið við stjórnvölinn í tuttugu ár.

Sunnukórinn 1973

Sunnukórinn 1973

1973 fór kórinn í söngferðalag til Noregs og Færeyja og hlaut þar góðar viðtökur. Einnig söng kórinn mikið hér innanland, sínu mest á heimaslóðum en hann fór einnig í söngferðir til Reykjavíkur og Norðurlands.

Árið 1982 var kórnum skipt í tvær einingar þegar ákveðið var að kirkjukórshlutinn yrði sjálfstæð eining, sá hluti kórsins hét nú orðið Kirkjukór Ísafjarðar og var undir stjórn Kjartans Sigurjónssonar en Sunnukórinn var áfram undir stjórn Jónasar Tómassonar yngri þar til Margrét Bóasdóttir tók við af honum. Hún staldraði þó aðeins við í einn vetur.

Haustið 1986 kom hin ungverska Beáta Joó til sögunnar og stjórnaði Sunnukórnum til 1994. Undir hennar stjórn fór kórinn í söngferð til Ungverjalands sumarið 1988.

Margrét Geirsdóttir tók við af Beátu Joó haustið 1996 og stjórnaði kórnum næstu árin, undir hennar stjórn fór kórinn til Bandaríkjanna árið 2002 á slóðir Ragnars H. Ragnar fyrrum kórstjórnanda, til að heiðra minningu hans. Þar söng kórinn við góðar undirtektir og hitti þar m.a. fyrrverandi nemendur Ragnar.
Ári síðar, 2003 kom út önnur plata kórsins, Kveðju mína og kærleiksband en Sigurður Rúnar Jónsson annaðist upptökuþátt hennar, platan var tekin upp í Ísafjarðarkirkju. Á plötunni er að finna efni vestfirskra tónskálda úr ýmsum áttum.

2007 fór Sunnukórinn í enn eina utanlandsreisu sína þegar hann heimsótti fjögur lönd, Eystrasaltslöndin Eistland, Lettland og Litháen, auk Finnlands. Þá hafði Ingunn Ósk Sturludóttir tekið við starfi kórstjórnanda af Margréti Geirsdóttur og gegnir hún því starfi enn.

Starfsemi Sunnukórsins er því í fullum gangi og ekkert sem bendir til þess að breytingar verði á þar um næstu árin. Tónlistarlíf Ísfirðinga hefur að nokkru leyti snúist í kringum kórinn og væri öllu snauðara ef ekki hefði komið til frumkvöðlastarf þeirra Jónasar Tómassonar og Ragnars H. Ragnar fyrrum.

Efni á plötum