Te fyrir tvo (1982-83)

Te fyrir tvo

Te fyrir tvo

Hljómsveitin Te fyrir tvo (Tea for two / T42 / Tea 4-2) var starfrækt í Kópavoginum á árunum 1982-83 og þótti spila pönk í anda Purrks Pillnikk og Jonee Jonee, sem þá voru upp á sitt besta.

Sveitin sem var stofnuð vorið 1982 tók þátt í fyrstu Músíktilraunum Tónabæjar og SATT þá um haustið en komst ekki í úrslit. Sveitin hlaut þó töluverða athygli, hafði sigrað í Hæfileikakeppni Kópavogs 1982 og spilaði í kjölfarið m.a. í Stundinni okkar í Ríkissjónvarpinu en meðlimir hennar voru þá í yngri kantinum. Þeir voru Bragi Valgeirsson söngvari, Ásgeir Pálsson söngvari, Trausti Jónsson trommuleikari og Kristján Leifsson bassaleikari.

Pétur Jónsson trommuleikari (Þarmagustar o.fl.) mun hafa verið um tíma í sveitinni undir lok ársins 1983.