Týról (1982-86)

Týról

Týról

Hljómsveitin Týról frá Sauðárkróki var nokkuð öflug á ballmarkaðnum norðanlands á níunda áratugnum og var fastur gestur á Sæluvikuhátíð Sauðkræklinga, svo fátt eitt sé nefnt.

Týról var stofnuð í ársbyrjun 1982 og starfaði að líkindum í fjögur ár, meðlimir sveitarinnar voru Gunnar Ingi Árnason trommuleikari, Ægir Ásbjörnsson söngvari, gítarleikari og hljómborðsleikari, Eiríkur Hilmisson gítarleikari, Margeir Friðriksson bassaleikari og Guðbrandur Guðbrandsson saxófón- og hljómborðsleikari.

Sveitin lék einkum á böllum á heimaslóðum og t.d. á Húnahátíð á Blönduósi en hæst reis frægðarsól sveitarinnar þegar hún lék á kántrýhátíð á Skagaströnd sumarið 1984 þegar Friðrik Þór Friðriksson var þar að taka um mynd sína, Kúreka norðursins. Týról birtist þar, spilandi kántrý án þess þó að vera kántrýsveit eftir því sem best er vitað.

Árið 1985 var Sigurður Þór Ásbjörnsson gítar- og hljómborðsleikari í sveitinni og á einhverjum tímapunkti var Kristján Baldvinsson trommuleikari einnig í henni.