Útópía [2] (1998-2002)

engin mynd tiltækHljómsveitin Útópía var stofnuð 1998 og kom upphaflega frá Dalvík og Akureyri. Meðlimir sveitarinnar komu úr ýmsum böndum, m.a. Exit, Flow, Tombstone o.fl.

Sveitin lét fljótlega að sér kveða og tók þátt í hljómsveitakeppninni Rokkstokk í Reykjanesbæ árið 1999. Þar komst Útópía í úrslit og komu út tvö lög með henni á safnplötunni Rokkstokk 1999, sem gefin var út í tengslum við keppnina.

Heilmikil læti urðu reyndar í tengslum við sveitina í Rokkstokk þegar nokkrir ölvaðir unglingar veittust að söngvara sveitarinnar eftir keppnina og varð lögregla að skerast í leikinn þegar hópslagsmál brutust út niðri í fjöru. Keppnin var ekki haldin aftur eftir þetta.

Sveitin gaf síðan út plötuna Efnasambönd sumarið 2000 en þá var hún skipuð þeim Kristjáni Má Ólafssyni gítar- og hljómborðsleikara, Karl Henry Hákonarsyni söngvara, Aðalsteini Jóhannssyni bassaleikara og Magnúsi Rúnari Magnússyni trommuleikara. Platan var tekin upp og hljóðblönduð í stúdíó Ofheyrn og hlaut ágætar viðtökur, t.d. fékk hún góða dóma í tímaritinu Undirtónum.

Fljótlega eftir að Efnasambönd kom út hætti Magnús trommuleikari og var sveitin trommuleikaralaus í heilt ár eða þar til Jón Björn Ríkarðsson (Brain police) gekk til liðs við þá haustið 2001. Fleiri trommuleikarar munu einnig hafa gengið til liðs við Útópíu en staldrað stutt við. Konráð Wilhelm Sigursteinsson bassaleikari kom einnig inn sem nýr meðlimur í stað Aðalsteins þannig að mannabreytingar settu svolítið mark sitt á sveitina.

2001 kom út fjögurra laga platan Ögn, sem fór ekki hátt. Sú plata fékkst gefins í verslunum Japis á sínum tíma.

Sveitin starfaði allt til vorsins 2002 en þá var hljómsveitin Tenderfoot stofnuð upp úr rústum Útópíu.

Efni á plötum