Vébandið (1981-83)

Vébandið (2)

Vébandið

Nýbylgjusveitin Vébandið frá Keflavík, starfaði um tveggja ára skeið á árunum 1981-83 og var meðal þeirra sveita sem kepptu í fyrstu Músíktilraunum Tónabæjar og SATT haustið 1982, hún komst ekki í úrslit en vakti nokkra athygli og lék á fjölmörgum tónleikum á höfuðborgarsvæðinu um þetta leyti.

Vébandið var stofnað af Ragnari Júlíusi Hallmannssyni trommuleikara, Georg Eini Friðrikssyni gítarleikara, söngvaranum Guðmundi Karli Brynjarssyni (síðar presti í Kópavogi) og Einari Fal Ingólfssyni bassaleikara (síðar ljósmyndara). Georg gítarleikari hætti í sveitinni 1982 og tók Sævar Ingimundarson við af honum.

Framan af hafði sveitin leikið tilraunakennt og hrátt en þó um leið melódískt popp en eftir að Sævar gekk til liðs við hana varð tónlistin hrárri og pönkaðri. Þannig skipuð keppti sveitin í Músíktilraunum haustið 1982.

Ragnar trommuleikari lést í hörmulegum bruna ásamt tveimum öðrum skipverjum um borð í rækjutogaranum Gunnjóni sumarið 1983, Eðvarð Vilhjálmsson tók við kjuðunum en sveitin starfaði ekki lengi eftir það. Skömmu áður hafði Guðmundur Karl hætt í sveitinni.

Qjtzí Qjtzí Qjtzí var síðan stofnuð um haustið upp úr Vébandinu.