Orgill (1990-93)

Orgill2

Orgill

Orgill var sérstök hljómsveit sem vakti athygli fyrir sérstaka tónlist, gaf út eina plötu og hvarf fljótlega eftir það.

Sveitin var stofnuð í ársbyrjun 1990 af nokkrum félögum sem höfðu verið í hljómsveitum eins og Rauðum flötum, De Vunderfoolz og Síðan skein sól þannig að meðlimir komu úr ýmsum áttum.

Orgill mun upphaflega hafa verið tilraunastarfsemi í hljóðverinu Hljóðakletti sem þróast yfir í hljómsveit sem lék einhvers konar framsækna heimstónlist undir áhrifum m.a. frá Afríku og Frakklandi. Í upphafi var sveitin skipuð þeim Kolbeini Einarssyni gítarleikara, Hermanni Jónssyni bassaleikara, Hönnu Steinu Hjálmtýsdóttur söngkonu og Valgeiri [?] sem lék líklega á trommur, Ingólfur Sigurðsson trommuleikari tók a.mk. við hlutverki hans fljótlega. Síðastur kom inn Einar Jónsson básúnuleikari.

Sveitin hélt áfram að þróa tónlist sína sem tók nokkrum breytingum með aukinni áherslu á rafhljóðfæri sem höfðu verið í minnihluta upphaflega. Þau tóku að spila töluvert opinberlega, fengu yfirleitt jákvæða gagnrýni fyrir sérstæða tónlist sína og svo fór að sveitin hélt til Frakklands og lék þar á nokkrum tónleikum í upphafi árs 1991. Þá var Einar básúnuleikari hættur í sveitinni en hann átti þó eftir að koma við sögu á plötu sveitarinnar sem kom út síðar.

Gagnrýnendur Æskunnar, Þjóðviljans og Morgunblaðsins tóku Orgli líka vel þegar lag kom út með sveitinni á safnplötunni Úr ýmsum áttum sumarið 1991 og um það leyti hafði fjölgað í sveitinni. Tvær ungar söngkonur, Friðborg Jónsdóttir og Hera Björk Þórhallsdóttir bættust í hópinn sem og Bergur Már Bernburg (Biff Burger) hljómborðsleikari. Ein heimild nefnir einnig Jóhann Sigfússon. Svo virðist sem söngkonurnar tvær hafi ekki verið nema stuttan tíma í Orgli en sungu þó með sveitinni þegar meira lá við, og á plötunni sem fyrr var minnst á.

Orgill1

Orgill

Veturinn 1991-92 fór í plötuupptökur og um sumarið 1992 kom platan loks út eftir nokkrar tafir. Orgill gaf hana sjálf út og var hún samnefnd sveitinni, reyndar vönduðu sveitarmeðlimir stóru útgáfurisunum ekki kveðjurnar í blaðaviðtölum og má skilja sem svo að það væri ekki að ástæðulausu sem þau gæfu plötuna út sjálf.

Þrátt fyrir að platan seldist fremur rólega hlaut hún undantekningalaust prýðilega dóma í blöðunum, Pressan, Morgunblaðið, Æskan og Vikan gáfu henni öll góða dóma. Og um svipað kom eitt laganna á plötunni út á safnplötunni Bandalög 5.

Þrátt fyrir ágæta dóma virtist sem sveitin missti nokkuð móðinn og minna fór fyrir henni en áður, þau spiluðu þó heilmikið veturinn 1992-93 en um vorið lauk sögu hennar þegar Ingólfur trymbill gekk til liðs við Pláhnetuna sem þarna fór sinn sumarsveitaballarúnt. Þá var greinilega ekki grundvöllur fyrir frekara samstarfi og Orgli var sjálfhætt.

Um sumarið 1993 kom út lag með sveitinni á safnplötunni Íslensk tónlist 1993 og var það svanasöngur Orgils.

Efni á plötum