Rauðir fletir (1986-87)

Rauðir fletir1

Rauðir fletir á sviði

Reykvíska hljómsveitin Rauðir fletir vakti mikla athygli á sínum tíma þegar mikil deyfð var yfir rokksveitum á Íslandi, sveitin hafði háleit markmið, lifði fremur stutt en sendi þó frá sér tvær plötur.

Davíð Freyr Traustason hafði verið söngvari í hljómsveitinni Röddinni og fengið nokkra athygli með þeirra sveit þegar hann ásamt Ingólfi Sigurðssyni trommuleikara (SSSól, Greifarnir o.fl.) stofnaði hljómsveitina Rauða fleti í júní 1986. Aðrir stofnmeðlimir voru Hermann Jónsson bassaleikari (Megakukl, Orgill o.fl.), Kolbeinn Einarsson (Eftirlitið o.fl.) og Valdimar Bragi Bragason (Langbrók, Óðs manns æði o.fl.). Bergur Már Bernburg (Nýdönsk o.fl.) kom síðastur í  Rauða fleti en hann lék á hljómborð.

Fyrstu tónleikar þessarar nýbylgjurokksveitar voru ekki af verri endanum en þeir voru á 200 ára afmælistónleikum Reykjavíkurborgar í ágúst 1986, þótt sveitin væru meðal fyrstu sveita á svið var fjölmenni á Arnarhóli og mikill upplifun fyrir unga hljómsveitarmeðlimi (sem allir voru innan við tvítugt) að spila á stóru sviði með stærstu hljómsveitum landsins þess tíma.

Strax í upphafi var stefnan sett hátt og fyrr en varði höfðu þeir félagar tekið upp fjögurra laga plötu, samhliða því að leika mikið á tónleikum víðs vegar um borgina, en sveitin var alltaf dugleg að spila opinberlega. Á einum tónleikum Rauðra flata hitaði upp fyrir þá óþekkt hljómsveit sem hafði að geyma söngkonu að nafni Björku Guðmundsdóttur – Sykurmolarnir.

Rauðir fletir

Rauðir fletir

Platan sem gefin var út af hljómplötuútgáfunni Steinum hlaut nafnið Ljónaskógar og kom út strax um haustið. Hún var fjögurra laga og fékk ágæta dóma í DV, önnur gagnrýni birtist ekki um plötuna. Lagið Þögn af plötu náði einna helst vinsældum af plötunni.

Sveitin hóf fljótlega að vinna að næstu plötu sem átti að vera stór, enda fyrsta platan einungis hugsuð sem kynning á sveitinni.

Mannabreytingar urðu í Rauðum flötum um haustið 1987 þegar Hermann bassaleikari hætti og Össur Hafþórsson kom í hans stað en hann hafði verið með Davíð söngvara í hljómsveitinni Röddinni  sem þá var hætt störfum, heimild segir að Gunnar Hilmarsson hafi um tíma einnig leikið á bassa í Rauðum flötum. Þegar hér var komið sögu var Bergur hljómborðsleikari einnig hættur og svo virðist sem brestir hafi þá þegar verið komnir í samstarfið.

Platan kom út fyrir jólin 1987 og vakti ekki eins mikla athygli og vonast hafði verið til, sveitin hætti störfum um svipað leyti og hvort það var vegna þess að platan hlaut fremur neikvæða dóma í Helgarpóstinum og DV eða af öðrum ástæðum, er ekki ljóst.

Meðlimum sveitarinnar átti síðar eftir að skjóta upp í hljómsveitum eins og Eftirlitinu, Blátt áfram, Orgli og fleiri þekktari sveitum síðar, og því mætti segja að Rauðir fletir hafi verið eins konar stökkpallur fyrir meðlimir hennar.

Efni á plötum