Nafnleysingjarnir og Johnny (1964-66)

Nafnleysingjarnir og Johnny

Nafnleysingjarnir og Johnny

Á Akureyri starfaði á árunum 1964-66 bítlasveit sem hlaut nafnið Nafnleysingjarnir, venjulega var sveitin þó kölluð Nafnleysingjarnir og Johnny en sá Johnny var Jón Stefánsson söngvari.

Nafnleysingjarnir var stofnuð 1964 og voru meðlimir sveitarinnar auk Johnnys, Árni Þorvaldsson, Vilhelm J. Steindórsson gítarleikari, Haraldur Tómasson [gítarleikari?], Reynir Adolfsson og Sigurður Ringsted Sigurðarson [trommuleikari?].

Þegar sveitin kom fram í fyrsta skiptið (í pásu hjá Hljómsveit Ingimars Eydal) spurði Þorvaldur Halldórsson söngvari hljómsveitar Ingimars hvert nafn pásusveitarinnar væri. Þegar honum var tjáð að sveitin væri nafnlaus kynnti hann hana á svið sem hljómsveitina Nafnleysingjana. Og svo varð.

Framan af lék sveitin einungis á heimaslóðum en síðar tóku sveitaböllin víð og þá var farið lengra út fyrir heimahagana. Haustið 1965 hættu þeir Haraldur, Reynir og Sigurður í Nafnleysingjum og um sama leyti komu inn þeir Kristján Gunnarsson hljómborðsleikari og annar Sigurður Ringsted en sá var Baldvinsson.

Jörundur Guðmundsson trommuleikari (síðar eftirherma og skemmtikraftur) lék með Nafnleysingjunum í lokin, kom inn í hana í byrjun árs 1966 og starfaði með henni þar til hún hætti störfum um vorið.