Söngfélag var starfrækt á Vestdalseyri undir lok 19. aldarinnar en Vestdalseyri var lítið þorp við norðanverðan Seyðisfjörð og bjuggu þar um þetta leyti á annað hundrað manns.
Söngfélag Vestdalseyrar hafði líklega verið starfandi um nokkurt skeið árið 1897 en þá hélt það samsöng til styrktar byggingu spítala á Seyðisfirði, stjórnandi söngfélagsins var Halldór Vilhjálmsson organisti við Vestdalskirkju. Svo virðist sem kórinn hafi enn verið starfandi árið 1900 en þá var haldinn samsöngur í kirkjunni, ekki liggur þó fyrir hvort Halldór var þá enn við stjórnvölinn né heldur hversu lengi söngfélagið starfaði eftir það.














































