
Söngfélagið frá 14. janúar 1892
Karlakór sem bar nafnið Söngfélagið frá 14. janúar 1892 starfaði um nokkurra ára skeið í Reykjavík undir lok 19. aldarinnar og naut hvarvetna vinsælda þar sem hann söng opinberlega enda voru tónleikar ekki á hverju strái á þeim tíma.
Söngfélagið Harpan hafði verið starfandi í nokkra áratugi en nokkuð var farið að fjara undan því söngfélagi og tók þá Steingrímur Johnsen söngkennari við Latínuskólann (Lærða skólann) upp á því að stofna nýjan söngflokk karla þar sem uppistaðan var nemendur hans við skólann sem og nokkrir vel sönghæfir mektarmenn úr Reykjavík, alls um þrjátíu söngmenn og meðal þekktra tónlistarmanna má þarna nefna Sigfús Einarsson tónskáld, Jón Laxdal tónskáld og Brynjólf Þorláksson Dómkirkjuorganista. Nýja söngfélagið var kennt við stofndag þess og hlaut nafnið Söngfélagið frá 14. janúar 1892.
Hið nýja söngfélag (sem söng fjölraddað) kom líklega ekki fram opinberlega fyrr en um haustið 1892 þegar það hélt tónleika en upp frá því var tónleikahald fastur liður í starfsemi kórsins, oftar en ekki var þá sungið í Góðtemplarahúsinu við Tjörnina (Gúttó) en einnig víðar. Á tónleikum söngfélagsins söng Steingrímur stundum sjálfur einsöng með kórnum en einnig mun Guðrún Waage hafa komið fram sem einsöngvari með kórnum, hún var fyrsta íslenska konan sem nam söng hér á landi.
Söngfélagið frá 14. janúar 1892 hélt sína síðustu sjálfstæðu tónleika líklega vorið 1895 en söng eftir það mest á blönduðum skemmtunum og oft með öðrum kórum sem um það leyti voru víða að spretta upp, söngfélagið starfaði til ársins 1897.














































