Styrkjum úr Hljóðritasjóði og Tónlistarsjóði hefur verið úthlutað af menningar- og viðskiptaráðherra til ýmissa tónlistartengdra verkefna og varð Glatkistan eitt þeirra verkefna sem hlaut náð fyrir augum úthlutunarnefndarinnar að þessu sinni en vefsíðan hlaut 500.000 króna styrk úr Tónlistarsjóði.
Við athöfn sem fór fram í Safnahúsinu við Hverfisgötu á miðvikudaginn var tilkynnt að 19 milljónum króna hefði verið veitt til 60 verkefna úr Hljóðritasjóði en alls voru umsóknir þar 204, styrkirnir voru á bilinu 150 til 800 þúsund krónur. Flestir styrkjanna runnu til verkefna sem teljast til popp-, rokk- og hip hop-tónlistar í afar víðum skilningi eins og það er orðað en einnig voru styrkir veittir verkefnum tengdum samtíma- og djasstónlist auk annars konar tónlistarverkefna. Um var að ræða fyrri úthlutun úr Hljóðritasjóði á þessu ári.
Einnig var úthlutað úr Tónlistarsjóði en þar var um að ræða síðari úthlutun ársins. Tónlistarsjóður skiptist í tvennt, annars vegar tónlistardeild (sem almenn tónlistarstarfsemi heyrir undir) og hins vegar markaðs- og kynningardeild (kynning og markaðssetning á tónlist og tónlistarfólki hérlendis og erlendis). 65 verkefni hlutu alls 38 milljónir úr sjóðnum að þessu sinni og voru styrkupphæðirnar á bilinu 200 þúsund og upp í 2 milljónir en alls bárust 207 umsóknir að upphæð 234 milljóna króna.
Nánar er hægt að lesa um styrkveitingarnar úr Hljóðritasjóði og Tónlistarsjóði í frétt hér á vef Stjórnarráðsins.














































