Afmælisbörn 17. júní 2023

Katla Vigdís Vernharðsdóttir

Fjögur afmælisbörn eru á skrá Glatkistunnar á þessum annars ágæta þjóðhátíðardegi Íslendinga:

Magnús Stefánsson trommuleikari frá Raufarhöfn er sextíu og fjögurra ára gamall í dag. Magnús lék á sínum tíma með mörgum misþekktum hljómsveitum og voru Utangarðsmenn, Egó, Sálin hans Jóns míns, Maó, Skuggar, Tíbet tabú, Jenný og Bodies meðal þeirra. Magnús hefur í seinni tíð starfað við forvarnarfræðslu fyrir unglinga.

Katla Vigdís Vernharðsdóttir úr Between mountains er tuttugu og eins árs gömul á þessum degi. Katla Vigdís sem er frá Suðureyri við Súgandafjörð vakti fyrst athygli með dúettnum Between mountains sem sigraði Músíktilraunir árið 2017 en sveitin varð síðan að eins manns sveit hennar. Hún hefur einnig starfað með bræðrum sínum í tríóinu Celebs.

Hávarður Tryggvason kontrabassaleikari er sextíu og tveggja ára gamall í dag, hann nam hér heima áður en hann fór til framhaldsnáms í Frakklandi og Belgíu. Hann starfaði um tíma í Frakkalandi og Hollandi áður en hann kom aftur heim til Íslands þar sem hann hefur starfað með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Kammersveit Reykjavíkur, Tríó Reykjavíkur og fjölmörgum öðrum sveitum auk þess að hafa komið fram á fjölda hljómplatna.

Svavar Gests (1926-96) hefði einnig átt afmæli í dag en hann kom með ýmsum hætti að íslensku tónlistarlífi. Svavar ásamt Kristjáni Kristjánssyni (KK) komu með djasstónlistina beint í æð til Íslands frá Bandaríkjunum 1947 þegar þeir komu heim úr tónlistarnámi. Svavar hafði menntað sig í trommuleik og slagverki og starfrækti lengst af eigin sveit en lék einnig með öðrum hljómsveitum. Hann setti á fót hljómplötuútgáfur, SG-hljómplötur lifði lengst þeirra, en einnig gaf hann út tímarit, skrifaði um tónlist, annaðist dagskrárgerð hjá Ríkisútvarpinu, flutti inn erlenda tónlistarmenn og var framarlega í félagsmálum tónlistarmanna með ýmsum hætti.

Vissir þú að í kringum 1980 var starfandi hljómsveit á Akureyri sem hét Jamaica?