Söngfélagið Heimir (1933-39)

Söngfélagið Heimir

Söngfélagið Heimir er ekki meðal þekktustu kóra landsins en um var að ræða einn fyrsta blandaða kórinn sem starfaði á Íslandi og þótti mjög góður.

Tildrög þess að kórinn var stofnaður voru þau að Sigfús Einarsson hafði sett á stofn blandaðan kór fyrir Alþingishátíðina sumarið 1930 sem söng þar við hátíðahöldin en var síðan að þeim loknum lagður niður, enginn blandaður kór var þá starfandi í Reykjavík um nokkurt skeið en snemma árs 1933 hafði Sigrún Gísladóttir frumkvæði að því að stofna nýjan kór og fékk hún í lið með sér þá Gísla Guðmundsson og Jón Guðmundsson sem einnig þótti ótækt að enginn slíkur kór væri starfandi. Þau fengu til liðs við sig þekkt söngfólk sem hafði áhuga á því sama – líklega á milli tuttugu og fimm og þrjátíu manns (m.a. fólk sem hafði sungið með Alþingiskórnum) og fóru síðan á fund Sigfúsar Einarssonar sem samþykkti að taka að sér kórstjórnina þegar hann sá hverjir myndu skipa kórinn en hann hafði þá ætlað sér að draga sig að mestu í hlé frá söngstjórnun.

Kórinn varð því stofnaður formlega og hóf æfingar en fyrstu tónleikarnir voru svo haldnir vorið 1935 í Gamla bíói og hlaut þá strax ágætar viðtökur enda voru þeir tónleikar endurteknir, þar flutti kórinn bæði kirkjuleg og veraldleg verk. Það var þó ekki fyrr en rúmlega ári síðar sem kórinn hlaut loks nafn – Söngfélagið Heimir en hann söng fyrst undir því nafni um haustið 1936 á tónleikum í Dómkirkjunni en Sigfús var þá organisti þar og kórstjórnandi Dómkirkjukórsins, þeir tónleikar heppnuðust einnig afar vel og voru haldnir þrennir slíkir í kirkjunni og í framhaldinu hélt kórinn einnig tónleika á Eyrarbakka fyrir troðfullu húsi en Sigfús var einmitt ættaður þaðan. Eftir áramótin 1936-37 söng kórinn aftur í Dómkirkjunni og var þeim tónleikum útvarpað.

Söngfélagið Heimir starfaði áfram en heldur dró úr söngstarfinu vegna skorts á karlröddum, og árið 1938 lá starfsemi hans að nokkru leyti niðri vegna þess – auglýst var eftir bössum og tenórum og virðist kórinn heldur hafa tekið við sér eftir það. Heimir starfaði reyndar aðeins fram á vorið 1939 en Sigfús lést þá eftir að hafa fengið hjartaáfall, aðeins sextíu og tveggja ára gamall. Kórinn söng við útför hans undir stjórn Páls Ísólfssonar og í kjölfarið var saga Söngfélagsins Heimis öll.