Söngfélög Reykdæla (um 1880-1923)

Svo virðist sem nokkur söngfélög hafi verið starfandi í Reykjadal í Suður-Þingeyjarsýslu á síðustu áratugum 19. aldarinnar og fyrstu áratugum þeirrar 20, svo öflugt var sönglífið á köflum að um tíma voru tvö félög starfandi á sama tíma í dalnum en þess á milli var rólegra og líklega er um að ræða nokkur slík félög.

Fyrstu heimildir um söngfélag í Reykjadal eru frá því um 1880 en engar upplýsingar er að finna um það eða starfsemi þess, þegar prestfrúin Elísabet Jónsdóttir fluttist norður árið 1894 ásamt eiginmanni sínum og að Grenjaðarstað árið 1907 varð hún organisti við kirkjuna þar og lífgaði verulega upp á söngmenninguna í hreppnum. Hún stofnaði og hélt utan um að minnsta kosti tvö öflug söngfélög næstu áratugina í Reykjadal, árið 1913 voru t.a.m. um þrjátíu manns í félaginu og á sama tíma var annað söngfélag svipað að stærð starfandi í dalnum undir stjórn Áskels Snorrasonar á Þverá. Þessi félög munu ekki hafa starfað alveg samfleytt og svo virðist sem hóað hafi verið til æfinga þegar viðburðir voru framundan s.s. stærri kirkjulegar athafnir, héraðsskemmtanir og slíkt, líklega voru þetta allt blandaðir kórar sem sungu fjölraddað.

Ekki er ljóst hversu lengi söngfélag var starfandi í Reykjadalnum, vitað er að Elísabet var enn að stjórna blönduðum kór sem kom fram á skemmtun í Breiðumýri árið 1923 en hún fluttist suður til Reykjavíkur í kringum 1930.