Afmælisbörn 30. júní 2023

Hjörtur Howser

Á þessum síðasta degi júnímánaðar koma fjögur afmælisbörn við sögu:

Hjörtur Howser píanó- og hljómborðsleikari hefði átt afmæli á þessum degi en hann lést fyrr á árinu. Hann kom mjög víða við í íslensku tónlistarlífi, fyrst með sveitum eins og Tívolí og Fermata um 1980 en síðan með Bogart, Dúndrinu, Gömmum, Grafík, Hljómsveit Björgvins Halldórssonar, Partýtertunni, Stormsveitinni og að ógleymdri hljómsveitinni Fínt fyrir þennan pening. Hjörtur fékk einnig töluvert við upptökur.

Kvikmyndagerðarmaðurinn og fyrrverandi tónlistarmaðurinn Óskar Jónasson fagnar stórafmæli í dag en hann er sextugur. Óskar starfaði á yngri árum með hljómsveitum eins og Tónabræðrum, Handan grafar og Oxsmá en síðast nefnda sveitin er þeirra þekktust og gaf út efni. Óskar hefur leikstýrt fjölda tónlistarmyndbanda og þá hefur hann einnig hannað plötuumslög og meðal þeirra eru Gling gló með Björk & Tríói Guðmundar Ingólfssonar og Bein leið með KK bandi.

Örlygur Smári á fimmtíu og tveggja ára afmæli í dag. Örlygur Smári er auðvitað hvað kunnastur fyrir Eurovision framlög sín en hann hefur sent ótal lög til keppni í þeirri deild, og unnið hana í fjögur skipti hér heima með lögunum Tell me, This is my life, Je ne sais quoi og Ég á líf. Hann hefur ennfremur starfað með og starfrækt hljómsveitir eins og Kirsuber og Fyrirbæri.

Og að síðustu er hér nefndur sjálfur Daði Freyr Pétursson sem kunnastur er fyrir Eurovision framlög sín og að hafa landað fjórða sætinu í keppninni 2021 eftir að hafa þurft að sitja heima árið á undan vegna Covid-heimsfaraldursins. Daði Freyr og Gagnamagnið er líklega þekktasta hljómsveit hans en einnig má nefna sveitir eins og Retrobot sem sigraði Músíktilraunir 2012 (þar sem hann var kjörinn „rafheili“ Músíktilraunanna), Sendibíll, Mixophrygian og  Orchestra of few. Daði Freyr er þrjátíu og eins árs gamall í dag.

Vissir þú að óperusöngkonan María Markan fæddist í Ólafsvík?