Söngdagar í Skálholti [tónlistarviðburður] (1979-92)

Frá Söngdögum í Skálholti 1980

Um fimmtán ára skeið var haldinn árlegur tónlistarviðburður í Skálholti þar sem fólk úr ýmsum áttum hittist og æfði söng sem var svo fluttur á tónleikum í Skálholtskirkju, undir yfirskriftinni Söngdagar í Skálholti en hugmyndin og frumkvæðið kom frá Jónasi Ingimundarsyni píanóleikara sem var alla tíð stjórnandi verkefnisins, fleira tónlistarfólk kom þó einnig að verkefninu.

Það var sumarið 1979 sem fyrst var farið af stað með Söngdaga í Skálholti og var þá tilraun Jónasar og eiginkonu hans, Ágústu Hauksdóttur en þeim til aðstoðar í byrjun var söngfólk úr Hljómeyki, að öðru leyti kom söngfólkið héðan og þaðan svo úr varð helgi þar sem fólk á öllum aldri með ólíkan og mismikinn sönggrunn kom saman og skemmti sér við söng og æfingar á misstórum og krefjandi verkum, bæði fagfólk og áhugafólk. Tiltækið þótti takast nógu vel til að það var endurtekið árið eftir og hefð varð á um tíma að fyrsta helgin eftir 17. júní var tekin frá fyrir það eða í kringum Jónsmessuna – síðar voru söngdagarnir stundum haldnir í ágústlok.

Í fyrsta skipti höfðu um þrjátíu manns tekið þátt í Söngdögum í Skálholti en síðan fjölgaði þeim og voru yfirleitt í kringum 50-70 talsins án þess þó að viðburðurinn væri auglýstur neitt sérstaklega. Fyrirkomulagið var með þeim hætti að fólk kom saman á föstudegi, æfði alla helgina fram að síðdegismessu á sunnudeginum þar sem hópurinn tók þátt í guðþjónustusöngnum og svo voru tónleikar haldnir strax í kjölfarið.

Söngdagar í Skálholti voru haldnir fram á tíunda áratuginn, og í síðasta skipti sumarið 1992.