Söngfélagið Sunnan heiða (1999-2004)

Söngfélagið Sunnan heiða

Kór eða söngfélag mestmegnis skipað söngfólki af svarfdælskum uppruna starfaði á höfuðborgarsvæðinu um nokkurra ára skeið í kringum aldamótin undir nafninu Söngfélagið Sunnan heiða – reyndar gekk hópurinn fyrst um sinn ýmist undir nafninu Kór Svarfdæla/Svarfdælinga sunnan heiða, jafnvel Svarfdælingakórinn í Reykjavík en Sunnan heiða nafnið varð ofan á að lokum og undir því nafni kom plata út með kórnum.

Upphaf kórastarfsins má rekja til haustsins 1999 en þá um veturinn kom hópur saman í nokkur skipti til að syngja undir stjórn Kára Gestssonar innan Samtaka Svarfdælinga í Reykjavík – sem er átthagafélag þeirra Svarfdælinga á höfuðborgarsvæðinu, þá hafði Kári stjórnað kór áður innan félagsins á níunda áratugnum en sá kór (Svarfdælingakórinn) hafði liðið undir lok mörgum árum fyrr. Þessi nýi kór var sem fyrr segir ýmist kallaður Kór Svarfdæla eða Kór Svarfdælinga sunnan heiða og söng hann við ýmis tækifæri á samkomum Svarfdælinga s.s. þorrablótum og þess konar skemmtunum, og vorið 2001 var menningarhátíðin Svarfdælskur mars haldin í fyrsta sinn á Dalvík og var kórinn þar meðal skemmtiatriða.

Árið 2001 að öllum líkindum urðu þau tímamót innan kórsins að söngfólk úr starfsmannakórum SPRON (Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis) og RARIK gekk til liðs við hann en Kári hafði einnig verið stjórnandi þeirra kóra, við það stækkaði hópurinn eitthvað en þar sem kórinn var nú ekki lengur bundin svarfdælskum böndum eingöngu hlaut hann nýtt nafn – Söngfélagið Sunnan heiða. Gamla nafnið var þó ekki lagt svo auðveldlega til hliðar enda söng kórinn áfram á samkomum tengdum Svarfdælingafélaginu bæði sunnan heiða og norðan.

Söngfélagið Sunnan heiða

Veturinn 2002-03 fékk Söngfélagið Sunnan heiða Gunnstein Ólafsson til að semja tónverk unnið upp úr íslenskri rímnahefð og úr varð tónverkið Stemmur sem hafði að geyma níu rímnastemmur unnar upp úr þjóðararfinum. Kórinn hóf þegar undirbúning að flutningi á verkinu og svo fór að það var frumflutt á tónleikum á menningarhátíðinni Svarfdælskum mars í Dalvíkurkirkju í mars 2003 þar sem kórinn flutti það ásamt einsöngvaranum Ólafi Kjartani Sigurðssyni og Pétri Húna Björnssyni kvæðamanni. Verkið var einnig flutt um svipað leyti í Salnum í Kópavogi og skömmu síðar snemma sumars fór hópurinn síðan í söngferðalag til Færeyja og Hjaltlandseyja þar sem verkið var einnig flutt ásamt öðru sem kórinn bar á borð fyrir áhorfendur. Um þetta leyti voru Stemmur jafnframt hljóðritaðar í Fella- og Hólakirkju með það fyrir augum að gefa þær út á plötu.

Árið 2004 söng Söngfélagið Sunnan heiða sem fyrr á tónleikum á Svarfdælskum mars fyrir norðan og um haustið kom hann svo fram á 75 ára afmæli Kvæðamannafélagsins Iðunnar í Borgarleikhúsinu þar sem Stemmur voru enn og aftur fluttar – um svipað leyti kom verkið svo út á samnefndri plötu með kórnum, Ólafi Kjartani einsöngvara og Pétri Húna kvæðamanni.

Svo virðist sem Söngfélagið Sunnan heiða hafi hætt störfum um svipað leyti og platan kom út því ekki finnast neinar heimildir um að kórinn hafi komið fram á tónleikum eða skemmtunum eftir það.

Efni á plötum