Söngfuglarnir [1] (1974-75)

Söngfuglarnir Kristín og Árni

Þau Kristín Lilliendahl og Árni Blandon slógu í gegn sem Söngfuglarnir um miðjan áttunda áratug liðinnar aldar, þau sendu frá sér eina plötu undir því nafni og á henni er m.a. að finna eilífðarsmellinn Ég ætla að mála allan heiminn elsku mamma.

Kristín og Árni sungu fyrst barnalög opinberlega um haustið 1974 þegar þau komu fram á tónleikum í Háskólabíói og skömmu síðar sungu þau í Stundinni okkar í Ríkissjónvarpinu og voru þar síðan reglulegir gestir um veturinn 1974-75, reyndar voru tvær söngfuglabrúður sem sáust á skjánum en raddirnar voru þeirra.

Haustið eftir hafði Svavar Gests frumkvæði að því að gefa út plötu með Söngfuglunum og þau Kristín og Árni voru drifin í Tóntækni og sungu þar lög við undirleik hljómsveitar sem Reynir Sigurðsson stjórnaði, það er einkenni á lögum plötunnar að þau eru flest afar stutt og því hafði hún að geyma alls tuttugu lög. Hún hlaut hins vegar langan titil, Kristín Lilliendahl og Árni Blandon sem voru Söngfuglarnir syngja 20 barnalög. Til að kynda undir eftirvæntingu meðal barna héldu SG hljómplötur samkeppni um myndskreytingu á umslag plötunnar þar sem vegleg verðlaun voru í boði en það var Sigrún Halla Haraldsdóttir, þá tíu ára gömul sem varð hlutskörpust og prýðir mynd hennar af söngfuglunum plötuumslagið.

Platan, sem kom út fyrir jólin 1975 seldist vel og naut vinsælda og sérstaklega fékk lagið Ég ætla að mála allan heiminn elsku mamma mikla athygli, það lag hefur margsinnis verið gefið út á safnplötum og er löngu orðið sígilt í meðförum Kristínar sem söng það ein, en lagið hefur einnig gengið í endurnýjun lífdaga með Jóhönnu Vigdísi Arnardóttur. Mörg laganna á plötunni nutu reyndar töluverðra vinsælda.

Þrátt fyrir velgengnina varð ekki framhald á Söngfuglunum, Kristín sagði síðar í viðtali að hún hefði ekki verið ánægð með plötuna og að Ríkissjónvarpið hefði heldur ekki staðið við gerða samninga við þau Árna. Platan var því það síðasta sem heyrðist til Söngfuglanna.

Efni á plötum