Sönglagakeppni Reykjavíkurborgar [tónlistarviðburður] (1986)

Skjaldarmerki Reykjavíkur

Þegar haldið var upp á 200 ára afmæli Reykjavíkurborgar sumarið 1986 var blásið til margvíslegra hátíðahalda og m.a. var haldin sönglagakeppni af því tilefni, keppni sem reyndar fór ekki mikið fyrir enda var ýmislegt annað tónlistartengt s.s. tónleikahald á Arnarhóli sem hlaut meiri athygli.

Í keppnina sem bar heitið Með þínu lagi en var yfirleitt kölluð Sönglagakeppni Reykjavíkurborgar, bárust á annað hundrað laga en sérstök dómnefnd undir stjórn Svavars Gests sá um að velja af þeim fimm lög (útsett af Ólafi Gauki Þórhallssyni) sem kepptu til úrslita á veitingastaðnum Broadway í júnímánuði, áður höfðu lögin fimm (sem sungin voru af Björgvini Halldórssyni og Helgu Möller) verið kynnt í Ríkissjónvarpinu.

Það var lagið Hún Reykjavík eftir Bjarna Hafþór Helgason sem sigraði keppnina en Björgvin og Helga fluttu lagið saman í henni. Það kom ekki út á plötu fyrr en árið 1997, á sólóplötu Bjarna Hafþórs – Með á nótunum en þar fluttu Helga og Jóhann Helgason lagið. Í öðru sæti hafnaði lagið Breytir borg um svip eftir Kristínu Lilliendahl en Helga Möller söng það í keppninni, lagið kom svo út á plötu Vísnavina – Að vísu… síðar sama ár í flutningi höfundarins og naut þá nokkurra vinsælda. Ekki er getið um röð hinna laganna þriggja eða um höfunda þeirra en þau hétu Bærinn minn, Samviskan og Unga Reykjavík, svo virðist sem þau hafi ekki komið út á plötum.