Söngvakeppni Sjónvarpsins [2] (Singer of the world competition ) [tónlistarviðburður] (1983-)

Sigríður Gröndal syngur í keppninni hér heima 1983

Söngvakeppni Sjónvarpsins eins og hún var kölluð fyrst um sinn var undankeppni söngvakeppni einsöngvara sem BBC – breska ríkisútvarpið hóf að halda árið 1983 í Cardiff í Wales en keppnin sem ber heitið Singer of the world competition hefur verið haldin á tveggja ára fresti síðan þá. Keppnin er ætluð fyrir unga og efnilega einsöngvara en ekki hefur þó endilega verið haldið í þær reglur í Cardiff.

Ísland var því meðal þeirra þjóða sem tóku þátt í keppninni frá upphafi og hér var haldin undankeppni á vegum Ríkissjónvarpsins sem vakti nokkra athygli þótt það væri eðlilega ekki í líkingu við þá sem undankeppni Eurovision keppninnar hlaut fáeinum árum síðar – og reyndar færðist nafn einsöngvarakeppninnar, Söngvakeppni Sjónvarpsins síðar yfir á Eurovision keppnina og var þá yfirleitt talað um einsöngvarakeppnina sem Söngkeppni Sjónvarpsins í staðinn.

Undankeppnin var með því sniði fyrsta árið (1983) að undankeppni var haldin þar sem fimmtán einsöngvarar (ein heimild segir reyndar þrettán) öttu kappi sín á milli og sex þeirra komust í úrslit eftir að fimm manna dómnefnd undir stjórn Jóns Þórarinssonar tónskálds hafði kveðið upp úrskurð sinn. Úrslitin fóru síðan fram laugardagskvöldið 30. apríl í beinni útsendingu Ríkissjónvarpsins þar sem Eiríkur Hreinn Helgason, Elín Ósk Óskarsdóttir, Júlíus Vífill Ingvarsson, Kristín Sædal Sigtryggsdóttir, Sigríður P. Gröndal og Sigrún Valgerður Gestsdóttir kepptu um sæti Íslands í keppninni í Cardiff, jafnframt voru peningaverðlaun í boði auk þess sem sigurvegarinn myndi syngja einsöng með Sinfóníuhljómsveit Íslands á tónleikum. Hver einsöngvari söng tvö lög við píanóundirleik og eina aríu undir leik Sinfóníuhljómsveitar Íslands og lyktir urðu þær að Sigríður Gröndal sópran sigraði keppnina en Elín Ósk varð einu stigi á eftir henni í öðru sæti, Júlíus Vífill hafnaði í þriðja sæti. Í keppninni í Cardiff komst Sigríður ekki í sex manna úrslit en hlaut engu að síður góða dóma fyrir frammistöðu sína.

Sem fyrr segir var keppnin í Cardiff haldin á tveggja ára fresti og því var aftur haldin undankeppni hér heima á Íslandi vorið 1985, þar var gerð sú breyting á fyrirkomulagi keppninnar að undanúrslitin voru sýnd í beinni útsendingu rétt eins og úrslitin en keppendur voru níu talsins í undanúrslitunum. Sex einsöngvarar kepptu svo til úrslita eins og tveimur árum fyrr og voru það Ásdís Kristmundsdóttir, Elín Sigmarsdóttir, Erna Guðmundsdóttir, Ingibjörg Guðjónsdóttir, Michael Jón Clarke og Viðar Gunnarsson sem sungu á úrslitakvöldinu. Það var sú yngsta í hópnum, hin 19 ára gamla Ingibjörg Guðjónsdóttir sópran sem sigraði keppnina, Ásdís varð önnur og Viðar í þriðja sæti. Ingibjörg fór því sem fulltrúi Íslands til Wales en komst ekki í úrslit keppninnar fremur en Sigríður árið á undan.

Ingibjörg Guðjónsdóttir tekur við verðlaunum sínum 1985

Árið 1987 var engin undankeppni haldin hér heima enda virtist það fyrirkomulag ekki heldur vera í öðrum löndum, hins vegar valdi dómnefnd næsta fulltrúa Íslands sem var bassasöngvarinn Kristinn Sigmundsson sem var reyndar nokkuð eldri en fyrri fulltrúar Íslands. Kristinn komst ekki í úrslit keppninnar í Cardiff fremur en fyrri keppendur Íslands og reyndar vandaði hann fyrirkomulagi og skipulagi keppninnar ekki kveðjurnar í viðtali að henni lokinni, keppnin þótti einkennast af pólitík og klíkuskap og voru margir keppendur einnig ósáttir við hana. Reyndar sendi fulltrúi Ríkissjónvarpsins bréf til aðstandenda keppninnar og það gerðu líklega fleiri því ári síðar hafði reglunum verið breytt t.a.m. á þann hátt að söngnemendur dómnefndarmanna höfðu ekki keppnisrétt í henni en fram að því hafði það ekki þótt tiltökumál.

Árið 1989 var Rannveig Fríða Bragadóttir messósópran valin til að verða fulltrúi Íslands í Singer of the world competition keppninni og heyrði nú undankeppnin hér heima alveg sögunni til. Rannveig Fríða hafði ekki erindi sem erfiði í keppninni fremur en íslenskir fyrirrennarar hennar og komst ekki í úrslitin.

Keppnin í Cardiff var enn í mótum og nú voru þær stóru breytingar gerðar á henni að dómnefnd á vegum hennar fór sjálf og valdi keppendur í keppnina þannig að dómnefndir í hverju landi virðast ekki hafa haft neitt að segja um hvort fulltrúar þess væru meðal einsöngvara í keppninni. Þannig minnkuðu líkurnar verulega á að íslenskir einsöngvarar væru meðal keppenda og reyndar hefur slíkt aðeins gerst tvívegis síðan hið nýja fyrirkomulag var tekið upp, annars vegar árið 1993 þegar Ólafur Árni Bjarnason tenórsöngvari fékk boð um að keppa og svo árið 1999 þegar Tómas Tómasson bassasöngvari var meðal keppenda – hvorugur þeirra komst í úrslit.

Singer of the world competition er enn haldin á vegum BBC á tveggja ára fresti í Cardiff í Wales og nýtur mikilla virðingar.