
Halldór Þórðarson
Halldór Þórðarson bóndi og hreppstjóri frá Breiðabólstað á Fellsströnd hefur verið framarlega í tónlistarstarfi Dalamanna um margra áratuga skeið sem organisti og kórstjórnandi, og þegar þetta er ritað fara áratugir hans í því starfi að nálgast sjö talsins.
Halldór Þorgils Þórðarson fæddist snemma árs 1938 og er kominn af mikilli tónlistarætt, faðir hans hafði verið forsöngvari í Staðarfellskirkju í sveitinni og sömuleiðis forfeður hans á undan, og þegar orgel kom í kirkjuna tók dóttir hans (systir Halldórs) við sem organisti en Halldór er langyngstur sex systkina. Meðal syngjandi systkina hans má nefna Friðjón Þórðarson fyrrverandi ráðherra sem var m.a. einn Leikbræðra og Sturlu Þórðarson sem er einmitt faðir systkinanna Friðriks bassaleikara og Hönnu Dóru söngkonu Sturlubarna.
Halldór þótti snemma liðtækur harmonikkuleikari, hann eignaðist nikku fimmtán ára gamall og lék á dansleikjum víða um vestanvert landið á yngri árum, einn og ásamt öðrum. Hann fór svo til náms suður til Reykjavíkur, fyrst lítillega hjá Magnúsi Péturssyni píanóleikara og svo í Tónskóla þjóðkirkjunnar (hjá Páli Kr. Pálssyni og Mána Sigurjónssyni) þaðan sem hann lauk námi árið 1957, á sama tíma gerðist hann organisti og kórstjórnandi við Staðarfell – því starfi hefur Halldór gegnt nánast samfleytt allt til dagsins í dag og um árabil einnig gegnt sömu störfum við aðrar kirkjur í sveitinni í allt að sjö kirkjum samtímis – þeirra á meðal má nefna Hvammskirkju, Skarðskirkju, Dagverðarneskirkju og Staðarhólskirkju.
Halldór hefur ekki einvörðungu sinnt leikið á orgel og stjórnað kirkjukórum í Dölunum heldur einnig stjórnað öðrum kórum. Þannig stofnaði hann Þorrakórinn svonefnda árið 1962 og hefur stjórnað honum síðan, sá kór hefur einnig haft tvær smærri einingar innanborðs – annars vegar karlakórinn Frosta og kvennakórinn Funa sem Halldór hefur jafnframt stjórnað, hann hefur einnig stjórnað blandaða kórnum Vorboðanum.
Árið 1976 var tónlistarskóli stofnaður í Búðardal, um það leyti fluttist Halldór í þorpið og hóf þá að kenna þar á ýmis hljóðfæri en hann kenndi við skólann og gegndi síðan stöðu skólastjóra við hann til ársins 2008. Hann var einnig meðal stofnenda Nikkólínu, harmonikufélags Dalamanna árið 1982 og verið virkur í því alla tíð, hann hefur leikið með hljómsveit félagsins allt frá stofnun og einnig stjórnað henni en sú sveit gaf út tvöfalda plötu árið 1991, þess má einnig geta að hann hefur verið virkur í öðrum tónlistartengdum félagsmálum sveitarinnar því hann var um skeið í stjórn Kirkjukórasamband Dalaprófastdæmi. Halldór hefur einnig samið tónlist og hafa einhver laga hans komið út á plötum,
Halldór hlaut fálkaorðuna fyrir tónlistarstörf í heimahérað árið 2012, þá hefur hann einnig verið heiðraður af SÍHU, sambandi íslenskra harmoniku unnenda.














































