
Hallfríður Ólafsdóttir
Hallfríður Ólafsdóttir var í fremstu röð flautuleikara hér á landi en hún varð einnig þekkt sem hugmyndasmiðurinn og höfundurinn að tónlistarverkefninu Maxímús Músíkús sem margir þekkja bæði hér- og erlendis, Hallfríður var jafnframt virk í því að kynna tónlist kvenna.
Hallfríður Ólafsdóttir fæddist árið 1964 og ólst upp í Kópavogi þar sem hún lagði stund á nám við Tónlistarskólann í Kópavogi og síðar Tónlistarskólann í Reykjavík (sjá Bernharði Wilkinsyni) þar sem hún lauk einleikaraprófi á flautu og kennaraprófi en hún fór síðan utan til Bretlands í framhaldsnám, fyrst til Manchester og síðan London, og síðar til Parísar. Hallfríður lék á hvers kyns flautur, alt flautur, pikkolo-, blokk- og þverflautur.
Hallfríður var strax á námsárum sínum virk í tónleikahaldi bæði hér heima og einnig í London, og að námi loknu hélt hún fjölda tónleika bæði ein og ásamt öðrum á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni, sem hún gerði alla tíða síðan. Hún hóf að koma fram með Kammersveit Reykjavíkur, Caput hópnum og öðrum helstu kammersveitum landsins og stofnaði svo Camerarctica hópinn ásamt eiginmanni sínum, klarinettuleikaranum Ármanni Helgasyni, sem hefur farið um víðan völl við tónleikahald og gefið út plötur, síðar starfaði hún einnig með sveitum eins og Sláttukvintettnum, Íslenska flautukórnum og Poulenc hópnum. Sjálf gaf Hallfríður aldrei út plötu í eigin nafni en flautuleik hennar má samt sem áður heyra víða á plötum.
Árið 1997 gekk Hallfríður til liðs við Sinfóníuhljómsveit Íslands en hún starfaði einnig með hljómsveit Íslensku óperunnar og hljómsveit Þjóðleikhússins, en hún átti eftir að verða fyrsti flautuleikari sinfóníuhljómsveitarinnar og koma fram með henni sem einleikari í fjölmörg skipti á tónleikum. Hallfríður hafði áhuga á hljómsveitastjórnun og varð fyrst kvenna til að stjórna Sinfóníuhljómsveit Íslands á tónleikum en hún stjórnaði einnig á sínum tíma sveitum eins og Sinfóníuhljómsveit áhugamanna og Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, auk smærri sveita. Þá var hún framarlega í flokki við að kynna og koma tónlist kventónskálda á framfæri, bæði á tónleikum og í orði en hún var um tíma í stjórn KÍTÓN, félagi kvenna í tónlist.

Hallfríður Ólafsdóttir
Hallfríður fékk árið 2007 hugmynd að verkefni sem átti heldur betur eftir að vinda upp á sig og stækka en það var tónlistarverkefnið um músina Maxímús Músíkús, upphaflega átti einungis að vera um eina barnabók að ræða sem fræðsluverkefni um tónlist í samstarfi við Sinfóníuhljómsveit Íslands og myndskreytt af Þórarni Má Baldurssyni lágfiðluleikara og samstarfsmanni Hallfríðar í sinfóníusveitinni. Geisladiskur fylgdi með bókinni til að kynna börnum klassíska tónlist (bæði íslenska og erlenda) þar sem leikarinn Valur Freyr Einarsson las söguna, auk þess sem Maxi eins og hann var kallaður átti sitt eigið lag (sem Hallfríður samdi). Þegar verkefnið sló í gegn tengt útgáfu bókarinnar og plötunnar, og tónleikahaldi í kjölfarið varð ekki hjá því komist að halda því áfram og þegar upp var staðið höfðu fimm bækur komið út um músina í þýðingum á fjölda tungumála auk þess sem tónleikahald og annað fylgdi því víða um heim, þannig komu bækurnar m.a. út í Þýskalandi, Bretlandi, Ástralíu, Færeyjum, Suður-Kóreu og Kína svo dæmi séu nefnd. Auk þess fylgdi þessu verkefni annars konar söluvarningur svo þetta hugarfóstur Hallfríðar fór víða um heim í margs konar formi – og gerir enn.
Hallfríður vann til fjölda verðlauna og viðurkenninga fyrir framlag sitt til fræðslu fyrir unga hlustendur (Maxímús Músíkús verkefnið) og má þar m.a. nefna Fjöruverðlaunin, barnabókaverðlaun Menntaráðs Reykjavíkur, heiðursnafnbótina Associate of the royal academy of music (ARAM), eldhugi ársins (2017), bæjarlistamaður Garðabæjar og fálkaorðuna auk þess að vera tilnefnd til samfélagsverðlauna Fréttablaðsins, svo dæmi séu nefnd. Hún lést eftir veikindi haustið 2020 en hún var þá aðeins 56 ára gömul. Minningartónleikar hafa verið haldnir í nafni hennar.














































