Afmælisbörn 10. september 2023

Lay Low

Afmælisbörn Glatkistunnar eru þrjú á þessum degi:

Gerður (Guðmundsdóttir) Bjarklind á áttatíu og eins árs afmæli í dag. Gerður kom til starfa hjá Ríkisútvarpinu haustið 1961, starfaði fyrst á auglýsingadeildinni eða til ársins 1974 en einnig sem útvarpsþulur og dagskrárgerðarkona, hún stýrði til að mynda þáttunum Lögum unga fólksins og Óskastundinni, en hún kom einnig að lagavali á safnplötuseríunni Óskastundinni. Gerður söng með söngsveitinni Fílharmóníu um tuttugu og fimm ára skeið en rödd hennar hefur einnig heyrst á nokkrum plötum.

Barði Jóhannsson á einnig afmæli en hann er fjörutíu og átta ára gamall. Barði kom ungur við sögu á plötum, var t.d. á plötunni Ekkert mál, bæði sem söngvari og lagahöfundur aðeins fjórtán ára, hann kom einnig að nokkrum árshátíðarplötum á MR-árum sínum en um það leyti var hann einnig farinn að starfrækja hljómsveitir eins og Marsipan, Öpp jors og Amin og síðar Mínusbarði, Starwalker, Lady & bird og Bang Gang sem er hans þekktasta vörumerki. Barði hefur einnig unnið heilmikið við kvikmynda- og auglýsingatónlist.

Þá á Lay Low (Lovísa Elísabet Sigrúnardóttir) tónlistarkona fjörutíu og eins árs afmæli í dag. Lay Low er kunnust fyrir sólóferil sinn en hún hefur sent frá sér hátt í tíu plötur, hún hefur starfað með hljómsveitum eins og Benny Crespo‘s gang, Minx, Blússveit Þollýjar, Kefas band og Stratus, og ennfremur komið að kvikmynda- og leikhússtónlist og verið í samstarfi við fjöldann allan af þekktu og óþekktu tónlistarfólki. Þá má ekki gleyma framlagi hennar til Eurovision keppninnar vorið 2022.

Vissir þú að hljómsveitin Eik var endurreist árið 2000 með Björgvin Ploder sem söngvara?