Afmælisbörn 13. september 2023

Stella í Knarrarnesi

Fimm afmælisbörn koma við sögu íslenskrar tónlistar í dag á lista Glatkistunnar:

Andrea Gylfadóttir söngkona er sextíu og eins árs gömul á þessum degi. Andrea hafði lagt stund á söng og sellóleik þegar hún gekk til liðs við hljómsveitina Grafík og tók þar við af Helga Björnssyni. Þar sló hún í gegn og í kjölfarið styrkti hún stöðu sína meðal fremstu söngkvenna landsins með hljómsveitum eins og Todmobile, Tweety, Blúsmönnum Andreu og fleiri sveitum auk þess að syngja á plötum fjölda listamanna.

Tónlistarkonan Steinunn Sigþrúðardóttir Jónsdóttir á tuttugu og fjögurra ára afmæli í dag. Steinunn, sem einnig hefur vakið athygli fyrir baráttu sína fyrir réttindum flóttafólks, hefur starfað með rafdúettnum Asdfgh og hljómsveitinni Bagdad brothers sem báðar hafa unnið til Kraumsverðlauna og sent frá sér plötur.

Magnús Jónsson sem einnig hefur gengið undir nöfnunum Magse, Maximum og Gnúsi Yones er fjörutíu og þriggja ára gamall í dag. Magnús hefur komið víða í tónlistarsköpun sinni en þekktustu sveitir hans eru Subterranean og Amabadama. Hér má þó einnig nefna Original melody, Supah syndical, Tha Faculty, Gnúsi Yones & the Crackers og Akrobatik svo aðeins fáeinar séu nefndar, hann hefur jafnframt komið við sögu á plötu fjölda annarra tónlistarmanna.

Stella í Knarrarnesi (Guðríður Jóna Árnadóttir) söngkona átti þennan afmælisdag en hún lést árið 2009. Stella fæddist árið 1923 og þótti mikið efni í óperusöngkonu en aðstæður höguðu því að hún fórnaði söngnámi í Þýskalandi eftir stríð og væntanlegum söngframa í kjölfarið til að annast bræður sína, saga hennar er merkileg heimild um hugsunarháttinn og tíðarandann um miðja síðustu öld.

Jón Þórarinsson tónskáld hefði einnig átt þennan afmælisdag en hann lést 2012. Jón sem fæddist austur á Héraði 1917 nam sín fræði í Reykjavík, Bandaríkjunum, Þýskalandi og Austurríki, hann kom síðan heim og starfaði við Ríkisútvarpið sem dagskrárstjóri, Sinfóníuhljómsveit Íslands sem framkvæmdastjóri, stýrði kórum og sinnti ennfremur kennslu auk þess að semja tónlist. Þekktust sönglaga hans eru án efa Fuglinn í fjörunni og Íslenzkt vögguljóð á hörpu. Jón ritaði tónlistarsögu, sem ekki hefur komið út á opinberum vettvangi.

Vissir þú að Guðni Franzson klarinettuleikari var eitt sinn gítarleikari í unglingahljómsveitinni Poison for ears?