
Hallgrímur Jakobsson
Hallgrímur Jakobsson var lengi söngkennari við Austurbæjarskóla en hann stjórnaði einnig nokkrum kórum og samdi nokkurn fjölda sönglaga.
Hallgrímur Jónas Jónsson Jakobsson fæddist á Húsavík 1908, hann flutti til Vesturheims ungur að aldri en fjölskyldan sneri heim aftur fáeinum árum síðar þannig að hann lauk námi við Menntaskólann við Reykjavík og nam auk þess við Tónlistarskólann í Reykjavík, síðar lauk hann einnig söngkennaranámi þar.
Hallgrímur starfaði við tónlistar- og söngkennslu um árabil, kenndi þá bæði á píanó og harmóníum en hann lék einnig á gítar og spilaði stundum undir sem undirleikari gamanvísnasöngvara á skemmtunum. Hallgrímur starfaði lengst sem söngkennari við Austurbæjarskóla, frá 1945 og til dauðadags og þar stjórnaði hann barnakórum. Hann stjórnaði einnig fjölmörgum kórum fullorðinna, þekktastur þeirra var líklega Karlakór verkamanna sem hann stjórnaði á árunum 1933-40 en einnig stjórnaði hann síðar um tveggja ára skeið Karlakór Dagsbrúnar. Hallgrímur stjórnaði jafnframt um skemmri tíma kórum eins og Karlakórnum Svani, kór strætisvagnabílstjóra og kór esperantista en hann var mikill áhugamaður um esperantó málið.
Hallgrímur samdi einnig tónlist og hann mun hafa samið fjölmörg sönglög sem Karlakór verkamanna tók upp á sína arma og söng á tónleikum, þau lög munu mörg hver hafa öðlast nokkurra vinsælda meðal alþýðunnar og tvö þeirra að minnsta kosti komu út á plötu Maíkórsins – Við erum fólkið (1982). Þá samdi hann kantötu í tilefni af 25 ára afmæli Austurbæjarskóla og var hún flutt alloft á samkomum skólans hér áður. Hallgrímur kom einnig að útgáfu nokkurra nótnahefta, oft í samstarfi við Sigursvein D. Kristinsson en hann kenndi hugsanlega eitthvað við tónlistarskóla Sigursveins.
Hallgrímur lést árið 1976.














































