
Hallgrímur Þorsteinsson
Segja má að Hallgrímur Þorsteinsson hafi stutt verulega við framgang lúðrasveitatónlistar hér á landi en hann stofnaði og stýrði fjölmörgum slíkum sveitum um ævi sína, hann var einnig organisti, söngkennari og kórstjóri víða um land.
Hallgrímur var fæddur í uppsveitum Árnessýslu, vorið 1864 nánar tiltekið að Götu í Hrunamannahreppi. Hann var sendur þriggja ára gamall í fóstur sem varð til þess að hann fékk nokkurt tónlistaruppeldi en hann lærði ungur að leika á heimasmíðað orgel og var síðar við nám í orgelleik í Reykjavík um hríð.
Árið 1887 gerðist Hallgrímur organisti við Hrunakirkju í heimasveit sinni og gegndi því starfi um sex ára skeið en þá fór hann norður í Skagafjörð og varð organisti og kórstjóri á Sauðarkróki þar sem hann bjó og starfaði til 1906, samhliða þeim störfum vann hann við kennslu og svo við vegavinnu á sumrin því það var langt frá því að hægt væri að hafa tónlistina eina að lifibrauði á þeim tíma. Frá Sauðárkróki lá leið Hallgríms suður til Reykjavíkur og bjó hann þar mestan hluta ævi sinnar eftir það en var töluvert á ferð um landið þvert og endilangt til að koma á stofn lúðrasveitum og leiðbeina áhugasömu fólki á blásturshljóðfærin.
Í Reykjavík átti hann eftir að hafa mikil áhrif á tónlistarlífið, hann hafði verið í Reykjavík við nám í orgelleik árið 1887 og hrifist þá af starfi Lúðurþeytarafélags Reykjavíkur sem þá var nýtekið til starfa. Þarna árið 1906 fór hann sjálfur að prófa sig áfram með horn og naut þá einnig leiðsagnar Helga Helgasonar lúðrasveitaforkólfs. en kenndi öðrum einnig tónlist, m.a. söng og á harmóníum og svo einnig lúðrablástur. Nokkrum árum síðar hófst síðan það sem kalla mætti frumkvöðlaskeið Hallgríms í lúðrasveitamálum en hann átti eftir að eiga þátt stofnun og stjórnun fjölmargra slíka sveita og vinna þannig að framgangi tónlistarinnar með öflugum hætti. Hann var fremstur í flokki þeirra sem stofnuðu lúðrasveitina Hörpu árið 1910 og varð jafnframt fyrsti stjórnandi hennar, svo leiddi eitt af öðru – hann stofnaði lúðrasveitina Sumargjöf innan KFUM árið 1912 og stjórnaði henni í tvö ár, stofnaði einnig lúðrasveit innan góðtemplarareglunnar sem bar nafnið Svanur en lúðrasveitin Gígjan var síðan stofnuð upp úr henni árið 1915 og stjórnaði Hallgrímur henni til 1921. Harpan og Gígjan áttu síðan eftir að sameinast undir nafninu Lúðrasveit Reykjavíkur.
Árið 1921 flutti Hallgrímur til Borgarness og stofnaði þar bakarí, sú tilraun tókst ekki sem skyldi og bjó hann aðeins tvö ár þar í bæ þar til hann flutti aftur til Reykjavíkur en á þeim tíma tókst honum samt sem áður að stofna lúðrasveit þar sem gekk undir nafninu Þrestir, sú sveit starfaði í mörg ár eftir að Hallgrímur fór frá Borgarnesi. Hann var árið 1923 ráðinn söngkennari við Barnaskóla Reykjavíkur (Austurbæjarskólann) og kenndi þar til 1930 en á sumrin sinnti hann lúðrasveitaáhuga sínum með því að fara um landið til að stuðla að útbreiðslu og framgangi lúðrasveitatónlistarinnar.

Hallgrímur Þorsteinsson
Þannig hafði hann farið nokkrum árum fyrr vestur í Stykkishólm þar sem hann stofnaði og kom sveit á koppinn, og því starfi hélt hann áfram gangandi næstu árin – m.a. í Vestmannaeyjum þar sem hann var nokkur sumur í röð, og á Sauðárkróki þar sem hann hafði einmitt starfað um aldamótin en hann dvaldi nokkrar vikur á hverjum stað við leiðbeiningar og kennslu. Á höfuðborgarsvæðinu stofnaði Hallgrímur ásamt fleirum Lúðrasveitina Svan árið 1930 en hann var aðal hvatamaðurinn að stofnun þeirrar sveitar og fyrsti stjórnandi, sú sveit er sem kunnugt er ennþá starfandi. Hallgrímur átti með þessum hætti stóran þátt í að koma lúðrasveitahefðinni á koppinn og rétt er einnig að geta að hann stóð fyrir innflutningi á blásturshljóðfærum frá Þýskalandi til að hjálpa lúðrasveitum að stíga fyrstu skrefin, hann flutti jafnframt inn nótna- og kennslubækur og hafði reyndar einnig ritað söngkennslubók fyrir byrjendur snemma á öldinni. Það ætti því ekki að koma á óvart að fjölmargar lúðrasveitir áttu eftir að heiðra hann fyrir starfið og hér má t.a.m. nefna Lúðrasveit Reykjavíkur og lúðrasveitina Svaninn í þessu samhengi.
Hallgrímur var ekki einungis framámaður í lúðrasveitamenningunni heldur stjórnaði hann á Reykjavíkur árum sínum fjölmörgum öðrum kórum en hér hafa verið nefndir. Hann stjórnaði um tíma Söngkór KFUM (síðar Fóstbræðrum), Söngfélaginu Víkverjum, Ómum, Braga, kór Menntaskólans í Reykjavík og Kvennakór Reykjavíkur (hinum fyrri), hann leysti einnig stundum af sem organisti við Dómkirkjuna og Fríkirkjuna.
Síðustu æviár sín var Hallgrímur blindur og það var verulega erfitt fyrir manninn sem hafði yndi af að lesa og skrifa nótur, en hann lést haustið 1952 á áttugasta og sjöunda aldursári.














































