
Hallur Þorleifsson
Hallur Þorleifsson var kunnur bassasöngvari og kórstjóri en hann var t.a.m. í Dómkirkjukórnum og Fóstbræðrum í áratugi, þá var hann aukinheldur kórstjóri og vann ötullega að félagsmálum karlakórsins Fóstbræðra enda var hann einn af stofnendum kórsins.
Hallur Þorleifsson var fæddur austur í Rangárþingi (1893) en fluttist sex ára gamall til Reykjavíkur. Hann var kominn í söngkvartett innan KFUM árið 1908 aðeins fimmtán ára gamall en sá kvartett varð fljótlega að kór, sem síðar þróaðist í Karlakór KFUM og enn síðar í karlakórinn Fóstbræður, saga kórsins er samofin knattspyrnufélagsins Vals en Hallur var jafnframt einn af stofnendum þess félags. Hallur telst því meðal aðal hvatamanna að stofnun Fóstbræðra og meðal stofnmeðlima kórsins og starfaði með honum í áratugi auk þess að gegna ýmsum embættum og félagsstörfum innan hans – Hallur var síðar einnig í stjórn Sambands íslenskra karlakóra. Hallur hafði á yngri árum einnig sungið með Söngfélaginu 17. júní og Litla kvartettnum svokallaða, og um tvítugt gekk hann einnig í Dómkirkjukórinn þar sem hann kynntist verðandi eiginkonu sinni, söngkonunni Guðrúnu Ágústsdóttur og áttu þau hjónin eftir að starfa með þeim kór í yfir hálfa öld. Meðal barna þeirra hjóna voru bræðurnir og söngmennirnir Ásgeir og Kristinn Hallssynir.
Ekki liggur fyrir hvort Hallur hafði numið söng, hann mun þó hafa notið einhverrar leiðsagnar hjá Sigfúsi Einarssyni og á árunum 1933 til 44 stjórnaði hann sjálfur karlakór sem gekk undir nafninu Kátir piltar og var eins konar uppeldisstöð ungra söngvara innan Fóstbræðra, sá kór naut gríðarmikilla vinsælda en hann sameinaðist síðan Fóstbræðrum. Hallur naut þannig nokkurrar virðingar sem kórstjórnandi og var hann meðal söngstjórnenda sem önnuðust kórstjórn á lýðveldishátíðinni á Þingvöllum 1944, hann stjórnaði einnig tvöföldum kvartett sem gekk undir nafninu Áttmenningarnir auk þess sem hann stjórnaði um tíma söngkór tannlækna sem starfaði innan Tannlæknafélags Íslands.
Fyrir kom að Hallur syng einsöng á tónleikum á yngri árum en hann var þó mestmegnis kóramaður og tók t.a.m. þátt í tónleikauppfærslum á fjölda óratoría auk þess sem hann tók þátt í fyrstu óperuuppfærslu á Íslandi sem kórsöngvari í Óperukórnum.
Hallur Þorleifsson lést snemma árs árið 1974 kominn á níræðisaldur en hann hafði þá átt við heilsubrest að stríða um árabil.














































