
Sigfús Arnþórsson
Tvö afmælisbörn í tónlistargeiranum eru á skrá Glatkistunnar í dag:
Það er Sigfús E. Arnþórsson en hann er sextíu og sex ára gamall í dag. Sigfús lék með fjölda hljómsveita á árum áður, einkum norðanlands en það voru sveitir eins og Skýborg, Anus, Klassík, Namm, Tíglar, Árný trúlofast, Flugfrakt, Skarr og Mörðuvallamunkunum en einnig hefur hann gefið út sólóplötu. Hann er þó líklega þekktastur fyrir að hafa samið lagið Endurfundir sem Upplyfting gerði vinsælt hér í eina tíð.
Þá fagnar básúnu- og slagverksleikarinn Oddur Björnsson sextíu og fjögurra ára afmæli sínu í dag. Oddur er af básúnuættum, hann nam hér heima og í Bandaríkjunum og hefur leikið með stærri hljómsveitum sem minni s.s. Sinfóníuhljómsveit Íslands, Kammersveit Reykjavíkur, Básúnukvartettnum, Létt- og stórsveit Ríkisútvarpsins, Big band ´81 og Hljómskálakvintettnum svo nokkrar séu nefndar en leik hans má einnig heyra á tugum hljómplatna.
Vissir þú að Mezzoforte lék á um hundrað og fimmtíu tónleikum á ári í kringum miðjan níunda áratuginn?














































