
Hallgrímur Björgólfsson
Hallgrímur Björgólfsson var töluvert þekktur innan tónlistarsenunnar á fyrri hluta áttunda áratugar síðustu aldar, aðallega sem rótari vinsælla hljómsveita en einnig sem tónlistarmaður en henn gaf út eina smáskífu í eigin nafni.
Hallgrímur (fæddur 1954) er fóstursonur Björgólfs Guðmundssonar viðskiptamanns og er hálfur Bandaríkjamaður, fæddur vestan hafs. Snemma á áttunda áratugnum hóf hann að róta fyrir þekktar hljómsveitir eins og Rifsberju, Hauka og Erni, og stundum átti hann það til að troða upp með einhverjum þessara sveita. Það mun hafa orðið kveikja þess að hann ákvað að gerast tónlistarmaður og gefa út tveggja laga plötu með frumsaminni tónlist. Þegar til kom þótti honum lögin ekki nógu góð og fékk því tvö lög hjá hljómborðsleikara Arna, Ómari Óskarssyni og þau lög (Doctor Blues / I need a woman) voru svo hljóðrituð í hljóðveri Hjartar Blöndal árið 1974 og komu út undir merkjum Roady records en Ómar auk þekktra tónlistarmanna á borð við Þórð Árnason gítarleikara, Hrólf Gunnarsson trommuleikara og Gunnar Hermannsson lögðu einnig hönd á plóg. Smáskífan hlaut litla athygli en mesta athygli athygli vakti þegar Hallgrímur ásamt meðspilurum hitaði upp (ásamt Júdas) fyrir skosku rokksveitina Nasareth sem hélt tónleika í Laugardalshöllinni um svipað leyti og platan kom út, þrátt fyrir að hann byggi engan veginn yfir reynslu til að koma fram fyrir um 3000 áhorfendur. Þetta sama sumar tróð Hallgrímur einnig upp á útihátíðinni Húnaversgleði fyrir norðan.
Hallgrímur hafði frekari hugmyndir um að gerast tónlistarmaður og í því skyni fluttist hann til Bandaríkjanna en hann var eins og fyrr segir með tvöfalt ríkisfang, það gekk upp og ofan og að lokum hætti hann við þau áform og gerðist sjómaður. Hann starfaði við það um nokkurra ára skeið en færði sig síðan yfir í tölvugeirann. Hann hefur lítið fengist við tónlist síðan af því er virðist, hann hefur einnig verið búsettur hér heima og lék með hljómsveit sem bar nafnið Marel blues project en sú sveit var starfrækt innan Marel þar sem hann starfaði.














































