Hans Jensson (1941-)

Hans Jensson árið 1965

Saxófónleikarinn Hans Jensson gerði garðinn frægan með Lúdó sextett hér í eina tíð, hin síðari ár hefur hann tekið hljóðfærið aftur fram og hefur m.a. sent frá sér sólóplötu með saxófónleik.

Hans Þór Jensson er fæddur haustið 1941 í Reykjavík og byrjaði um fjórtán ára aldur að blása í saxófón, hann lærði fyrst á hljóðfærið hjá Braga Einarssyni og Vilhjálmi Guðjónssyni og var fyrstur allra til að nema saxófónleik við Tónlistarskólann í Reykjavík. Hann hóf ungur að leika með lúðrasveitinni Svaninum og þegar hann var 16-17 ára gamall fór hann að spila á tenór saxófón með hljómsveit sem síðar varð að Plútó sextett, sú sveit gekk í gegnum nafnabreytingar vegna hótana um lögsókn en árið 1958 fékk hún sitt endanlega nafn, Lúdó sextettinn en gekk lengst af undir nafninu Lúdó og Stefán. Með þeirri sveit lék Hans allt til 1967 og naut hún gríðarlegrar hylli einkum í kringum 1960 þegar hún var klárlega ein allra vinsælasta hljómsveit landsins, hann lék inn á nokkrar plötur með sveitinni.

Hans hætti að leika á saxófóninn eftir árin með Lúdó sextettnum, var erlendis um tíma og á áttunda áratugnum flutti hann svo vestur á Mýrar og gerðist þar bóndi, hann lagði tónlistina ekki alveg á hilluna því að hann átti þátt í stofnun Samkórs Mýramanna og stjórnaði þeim kór reyndar einnig um skeið.

Það var svo árið 1982 þegar FÍH hélt upp á 50 ára afmæli sitt með veglegri tónlistarhátíð, að gömlu félagarnir í Lúdó sextettnum fengu Hans til að spila með þeim á hátíðinni og það varð til þess að hann dró hljóðfærið fram á nýjan leik og hóf aftur að spila með sveitinni, hún starfaði eftir það með hléum næstu árin og svo nokkuð samfleytt frá og með 1990.

Hans hóf einnig í kjölfarið að koma fram á djasstengdum uppákomum, bæði jam sessionum þar sem hann m.a. tróð upp með Jens Hanssyni syni sínum (Sálin hans Jóns míns o.m.fl.), kvintett Friðriks Theódórssonar og fleirum en lengst lék hann með Kvartett Ómars Axelssonar á hvers kyns djasshátíðum s.s. Jazzhátíð í Reykjavík, RúRek hátíðinni o.fl. Kvartett Ómars gaf m.a.s. út plötu þar sem heyra má leik hans.

Hans Jensson

Og Hans hefur leikið inn á fleiri plötur í gegnum tíðina, hér má nefna plötur með Rúnari Þór Péturssyni, Hjördísi Geirs, Tríóinu Höfrungi og Álafosskórnum en hann lék margsinnis á saxið á tónleikum með þeim kór, það hefur hann reyndar einnig gert með Karlakór Kjalnesinga og Kvennakórum Seljum. Þá lék hann sem gestaspilari á frægum tónleikum Sálarinnar hans Jóns míns í Loftkastalanum sem gefnir voru út á plötu undir titlinum 12. ágúst ´99.

Hans, sem hefur verið búsettur í Mosfellsbæ síðustu árin hefur tekið virkan þátt í tónlistarlífinu þar og hefur starfað þar sem hljómsveitum eins og Kókos og Kynslóðabilinu, þá hefur hann jafnframt sungið með fyrrnefndum Álafosskór og karlakórnum Stefni.

Um miðjan annan áratug þessarar aldar lék Hans ásamt Grétari Örvarssyni hljómborðsleikara á Hótel Sögu undir nafninu Hans og Grétar, og varð þetta samstarf þeirra til þess að Hans gaf út sólóplötu árið 2017 sem hafði að geyma tólf lög úr ýmsum áttum, klassíska djass standarda og íslenskar dægurperlur, platan bar nafnið Hansi og var tileinkuð minningu Páls Helgasonar.

Hin allra síðustu ár hefur Hans enn verið að blása í saxófóninn, m.a. fyrir eldri borgara.

Efni á plötum