Harmonikufélag Vestfjarða [félagsskapur] (1986-)

Félagar úr Harmonikufélagi Vestfjarða

Harmonikufélag Vestfjarða hefur verið starfrækt vestur á fjörðum til fjölda ára og telst meðal elstu starfandi harmonikkufélaga landsins.

Harmonikufélag Vestfjarða var stofnað haustið 1986 og voru stofnfélagar þess tuttugu og átta talsins en þeir voru frá Ísafirði, Bolungarvík og Þingeyri. Ásgeir S. Sigurðsson var kjörinn fyrsti formaður félagsins en hann átti eftir að gegna því embætti í alls 22 ár, þó ekki alveg samfleytt. Aðrir formenn félagsins hafa verið þau Ingi Jóhannesson, Karitas Pálsdóttir og Júlíus Hafsteinn Vilhjálmsson.

Félagið hefur starfað samfleytt síðan 1986 og hefur meðlimum þess fjölgað verulega, líklega hafa þeir mest verið í kringum 80 og hafa þeir komið af öllum Vestfjörðum og jafnvel víðar af landinu. Það hefur verið rekið nokkuð öflugt starf innan félagsins, m.a. með nokkrum hljómsveitum sem m.a. hafa starfað undir stjórn Messíönu Marzellíusardóttur, Baldurs Geirmundssonar og Vilbergs Vilbergssonar (Villa Valla). Fastir liðir í dagskrá félagsins hafa verið dansleikir, ferðalög og heimsóknir, og þess má jafnframt geta að Harmonikfélag Vestfjarða hefur tvívegis haldið landsmót harmonikkuleikara – og sjálfir tekið þátt í landsmótum síðan 1990. Þá hefur félagið einnig staðið fyrir tónleikahaldi og fengið utanaðkomandi gesti til að leika á tónleikum auk þess sem félagið hefur tekið þátt í tónlistarhátíðinni Aldrei fór ég suður.