Afmælisbörn 17. október 2023

Erla Ragnarsdóttir

Tvö tónlistartengd afmælisbörn eru á listanum í dag:

Söng- og fjölmiðlakonan Erla (Sigríður) Ragnarsdóttir Dúkkulísa er fimmtíu og sex ára gömul í dag. Erla var söngkona hljómsveitarinnar Dúkkulísanna frá Egilsstöðum sem sigruðu Músíktilraunir 1983 og gaf út í kjölfarið lög eins og Pamela, Svarthvíta hetjan mín og Skítt með það, sem nutu mikilla vinsælda. Erla var einnig í dúettnum Þær tvær sem gaf út efni á sínum tíma, og hefur sungið á sólóplötum tónlistarmanna að austan, eins og Grétu Sigurjónsdóttur og Guðmundar R. Gíslasonar. Hún hefur alið manninn í Hafnarfirði síðustu árin.

Gunnar Sigurgeirsson organisti, kennari og tónlistarmaður átti einnig afmæli á þessum degi en hann lést árið 1970. Gunnar (fæddur 1901) var að aðalstarfi píanókennari en var einnig kórstjórnandi og stjórnaði m.a. karlakórnum Stefni, Þingeyingakórnum, Breiðfirðingakórnum í Reykjavík. Lögreglukórnum og Kór Háteigskirkju auk þess að vera undirleikari söngkvartettsins Leikbræðra og einsöngvara eins og Sigurðar Ólafssonar, þá stjórnaði hann um tíma Lúðrasveitinni Svani.

Vissir þú að Gísli Ferdinandsson var fyrstur til að útskrifast sem flautuleikari úr Tónlistarskólanum í Reykjavík?