Hljómsveit sem skilgreind var sem nýbylgjurokksveit starfaði í upphafi aldarinnar, á árunum 2001 til 2005 undir nafninu Han Solo. Sveitin er framan af sögð vera úr Vesturbæ Reykjavíkur en síðar undantekningalaust sögð vera úr Hafnarfirðinum, ekki er því skotu fyrir það lokið að um tvær sveitir sé að ræða.
Meðlimir Han Solo voru þeir Sveinn Marteinn Jónsson gítarleikari, Teitur Árnason bassaleikari og Símon Elvar Rúnarsson trommuleikari, þannig virðist sveitin lengst af hafa verið skipuð en í blaðaviðtali haustið 2003 var hún sögð vera að bæta við söngvara einnig. Engar upplýsingar er hins vegar að finna um hann.
Han Solo var mjög dugleg við tónleikahald á höfuðborgarsvæðinu á árunum 2003-05, og lék þá bæði í Reykjavík og Hafnarfirði. Svo virðist sem hún hafi starfað fram á haustið 2005 og hætt þá.
Sveitin sendi frá sér eina demó-smáskífu, að líkindum í tengslum við Iceland Airwaves hátíðina þar sem hún kom fram haustið 2003.














































