Harmoníkan [fjölmiðill] (1986-2001)

Forsíða fyrsta tölublaðs Harmoníkunnar

Um fimmtán ára skeið kom tímaritið Harmoníkan út en það var eins konar málgagn harmonikkuleikara og -unnenda hér á landi.

Hugmyndin um sértækt harmonikkublað mun hafa komið upp í kjölfar hvatningar frá sænska harmonikkuleikaranum Lars ek sem var staddur hérlendis um miðjan níunda áratuginn. Það voru þeir Hilmar Hjartarson og Þorsteinn R. Þorsteinsson sem voru upphafsmenn blaðsins, ábyrgðarmenn og ritstjórar en það kom út í fyrsta sinn haustið 1986 undir nafninu Harmoníkan, fyrsta tölublaðið var 20 blaðsíður en þeim var síðan fjölgað upp í 24 síður og hélst það nokkurn veginn eftir það.

Harmoníkan var stútfull af efni um harmonikkutónlistina, þar var að finna viðtöl og greinar, fræðsluefni ýmis konar, fréttir frá harmonikkufélögum landsins, nótur og ýmislegt annað efni. Þá stóð blaðið einnig fyrir uppákomum og harmonikkutengdum viðburðum og var þannig málgagn og miðill áhugafólks um harmonikkuleik, sem gat fylgst með því sem var að gerast í þeim heimi. Einnig var heilmikið af aðsendu efni birt í blaðinu, bæði innlendu og erlendu efni.

Þeir Hilmar og Þorsteinn (fyrstu tíu árin) og síðan Hilmar einn síns liðs, unnu með blaðinu mikið hugsjónastarf fyrir fáa áskrifendur, lítil laun og mikla vinnu og áttu sjálfsagt stóran þátt í að viðhalda og efla starf harmonikkufélaganna hér á landi. Og það var ljóst þegar Hilmar ákvað að hætta með blaðið vorið 2001 að mikið skarð yrði höggvið í samfélag og samskipti harmonikkuleikara, það skarð var þó fyllt um ári síðar þegar Samband íslenskra harmonikuunnenda (S.Í.H.U.) hóf útgáfu nýs tímarits undir nafninu Harmonikublaðið en sambandið hafði áður styrkt útgáfu Harmoníkunnar.

Harmonikan kom sem fyrr segir út í fimmtán ár, þrjú tölublöð komu út á ári – alls fjörutíu og fimm slík.