Haraldur Gunnar Hjálmarsson (1955-)

Haraldur Gunnar Hjálmarsson

Litlar upplýsingar liggja fyrir um tónlistarmanninn Harald Gunnar Hjálmarsson en hann hefur sent frá sér eina plötu í samstarfi við Sigmund Júlíusson.

Haraldur Gunnar er fæddur 1955 á Siglufirði og starfaði að öllum líkindum eitthvað með unglingahljómsveitum þar í bæ. Hann fluttist til Danmerkur rétt um 1970 ásamt fjölskyldu sinni en hann var sjónskertur og vildu foreldrar hans búa þar sem hann gæti fengið viðeigandi aðstoð í skólakerfinu og samfélaginu almennt, Haraldur missti sjónina svo alveg árið 2011.

Haraldur bjó líklega í Keflavík um skeið og hér er giskað á að hann sé tónlistarmaðurinn Haraldur Gunnar sem átti lög á safnplötunum Keflavík í poppskurn (1979) sem gefin var út í tilefni af 30 ára kaupstaðarafmælis Keflavíkur, og svo Skýjaborgum (1986) með lag sem hann flutti ásamt söngkonunni Ruth Reginalds. Allar frekari upplýsingar varðandi þetta væru vel þegnar.

Svo virðist sem Haraldur hafi svo aftur verið búsettur í Danmörku eftir það, þar starfaði hann sem píanóstillingamaður og mun einnig hafa starfað við tónlist ytra en heimildir þess efnis eru af skornum skammti, þó liggur fyrir að hann kom við sögu á plötunni Blinde troubadourer festival 1998 en hann var virkur í samfélagi blindra í Danmörku. Það sama var líklega uppi á teningnum þegar hann flutti aftur heim í kringum aldamót, hann vann að tónlist með hjónunum Gísla Helgasyni og Herdísi Hallvarðsdóttur og hefur einnig starfað með siglfirsku hljómsveitinni Vönum mönnum, hann gaf svo út plötuna Simmi Júl. og Halli Gunni spretta úr spori, ásamt Sigmundi Júlíussyni harmonikkuleikara en sjálfur leikur Haraldur á gítar og bassa á plötunni – hún hefur að geyma þekkt lög úr ýmsum áttum. Þá tók Haraldur þátt í norrænni söngvakeppni blindrasamtaka árið 2005 með eigin lagasmíð sem kom út á plötu í tengslum við þá keppni. Hann hefur samið nokkuð af lögum.

Efni á plötum