Haugur og heilsubrestur (1999-2000)

Haugur og heilsubrestur var tríó (líklega upphaflega dúett) sem kom að öllum líkindum aldrei fram opinberlega en sendi frá sér efni í kringum aldamót, óljóst er þó hins vegar hvenær nákvæmlega sveitin starfaði.

Í heimild er tónlist sveitarinnar skilgreind sem diskópönk og var hún líklega að mestu samin af Bjarna Þórðarsyni (Bjarna móhíkana), aðrir meðlimir Haugs og heilsubrests voru þeir Óskar Ellert Karlsson (Skari skakki) og Einar Friðjónsson (Einar vélsög) en sá síðarnefndi gæti hafa komið inn síðar til að koma efninu á útgáfuhæft form.

Að minnsta kosti ein plata kom út með sveitinni, það var afurð sem skráð er undir nafninu Textar og lög hjá Landsbókasafninu en einnig gæti hafa komið út plata undir nafninu Haugur og heilsubrestur – nema um sömu plötuna sé að ræða. Nokkur lög er jafnframt að finna á Youtube sem ekki eru á Textar og lög, þannig að þau gætu hafa verið á plötunni samnefndri sveitinni.

Eins og sjá má af ofangreindu er margt óljóst um þessa sveit.

Efni á plötum