
BandAIDS fjölmenn á sviði
Hljómsveitin BandAIDS var starfrækt innan heilbrigðisgeirans, fjölskipuð læknum og læknanemum og starfaði á árunum 2013 til 19. Þessi sveit kom fram á ýmsum skemmtunum tengdum læknastéttinni, árshátíðum og slíku og mun hafa verið þekktari fyrir líflega spilagleði en slípaðan tónlistarflutning eins og meðlimir sveitarinnar hafa komist sjálfir að orði.
BandAIDS var stofnuð í árslok 2013 til að koma fram á árshátíð Félags læknanema við HÍ vorið 2014 en sveitin átti síðan eftir að starfa og leika á árshátíð félagsins næstu sex árin á eftir. Sveitin var alltaf fjölmenn en í upphafi voru meðlimir sveitarinnar þau Edda Pálsdóttir söngkona, Einar Logi Snorrason hljómborðsleikari, Elín Edda Sigurðardóttir söngkona, Eyþór Björnsson gítar- og hljómborðsleikari, Sindri Stefánsson gítarleikari, Þórður Páll Þórðarson gítarleikari, Þórir Bergsson bassaleikari, Sölvi Rögnvaldsson trommuleikari (sem reyndar var menntskælingur en ekki læknanemi) og svo Sæmundur Rögnvaldsson trompetleikari sem hafði veg og vanda af stofnun sveitarinnar. Albert Sigurðsson bættist fljótlega í hópinn og svo Gísli Gunnar Jónsson sem leysti Sölva trommuleikara af hólmi.
Á næstu árum komu ýmsir aðrir fram með sveitinni, hér má nefna Sigrúnu Ósk Jóhannesdóttur söngkonu, Gígju Gylfadóttur söngkonu, Helga Kristjánsson trommuleikara, Guðrúnu Matthildi Sigurbergsdóttur söngkonu, Tryggva Þór Skarphéðinsson trommuleikara, Maríu Gyðu Pétursdóttur söngkonu, Aðalstein Dalmann Gylfason trommuleikara, Aðalbjörgu Ýr Sigurbergsdóttur og Ingibjörgu Ragnheiði Linnet trompetleikara, en þau fjögur síðastnefndu voru þá læknanemar við Háskóla Íslands.
BandAIDS hafði á boðstólum fjölbreytt prógram stuðlaga með slagsíðu af fönkskotnu diskópoppi sem jafnvel var brotið upp með samhæfðum dansatriðum karlleggs sveitarinnar, iðulega við mikinn fögnuð viðstaddra. Sveitin mun hafa komið fram alls hátt í þrjátíu sinnum á skemmtunum hinna ýmsu læknafélaga og Félags læknanema auk annars konar uppákoma tengdum læknastéttinni s.s. brúðkaupum og slíku.














































