
Merki Harmonikufélags Rangæinga
Harmonikufélag Rangæinga var um langt árabil meðal virkustu félaga af því taginu en nokkuð hefur dregið úr starfinu á allra síðustu árum.
Félagið var stofnað vorið 1985 að frumkvæði Valdimars Auðunssonar harmonikkuleikara frá Dalseli í Landeyjum en hugmyndin hafði komið upp í tengslum við sjötugs afmæli hans, um áttatíu manns komu að stofnun félagsins. Valdimar var sjálfur fyrsti formaður félagsins sem í fyrstu gekk undir nafninu Félag harmonikuunnenda í Rangárvallasýslu, og gegndi því embætti fyrstu árin en Sigrún Bjarnadóttir á Hellu tók við því starfi fjórum árum síðar og um sama leyti hlaut félagið nýtt nafn, Harmonikufélag Rangæinga. Sigrún hélt um stjórnartaumana til árins 1998 en þá tók Jóhann Bjarnason bróðir hennar við formannsstarfinu og gegndi því þar til hann lést 2015 en Haraldur Konráðsson hefur verið formaður félagins síðan þá.
Starfsemi Harmonikufélags Rangæinga hefur lengst af verið með hefðbundnu sniði, samspil, dansleikir og aðrar spilatengdar samkomur hafa verið fastur liður hjá því og t.a.m. hafa verið haldnir dansleikir síðasta vetrardag um árabil. Hljómsveitir hafa verið starfræktar innan félagsins nánast frá upphafi og hafa þær verið starfandi undir stjórn Grétars Geirssonar. Þá hafa harmonikkuleikarar úr félaginu komið fram á bæjarhátíðum eins og Töðugjöldum og á þorrablótum og öðrum samkomum í héraðinu, félagið hefur einnig stuðlað að framgangi nikkunnar á svæðinu, t.d. með því að vera í samstarfi við Tónlistarskóla Rangæinga og færa skólanum harmonikkur að gjöf auk þess sem harmonikkusveitir hafa starfað innan skólans í tengslum við félagið. Félagið hafði einnig frumkvæði að því að færa harmonikkutónlist inn í leikskólana en það verkefni hefur breiðst út víða um land. Þess má einnig geta að harmonikkuleikarar í félaginu hafa leikið á svokölluðu harmonikkumessum í kirkjum sýslunnar og víðar.

Hljómsveit Harmonikufélags Rangæinga 1990
Harmonikufélag Rangæinga hefur verið aðili að Sambandi íslenskra harmonikuunnenda (SÍHU) nánast frá upphafi og hefur tvívegis haldið landsmót sambandsins, félagsmenn hafa einnig farið margsinnis í ferðalög innanlands og einnig í eina ferð til Færeyja. Tvær plötur hafa komið út á vegum þess, annars vegar árið 1999 þegar platan Harmonikufélag Rangæinga kom út – sextán laga plata með lögum m.a. eftir félagsmenn, og svo hins vegar 2010 þegar platan Í morgunsól minninganna kom út, einnig sextán laga og með svipuðu sniði og hin fyrri.
Á síðustu árum hefur heldur dregið úr starfsemi Harmonikufélags Rangæinga, um miðjan annan áratug aldarinnar voru enn á milli fimmtíu og sextíu félagsmenn í því en á allra síðustu árum hefur þeim líklega fækkað nokkuð og má líklega að einhverju leyti kenna Covid-faraldrinum 2020-22 en það er allt eins líklegt að þar sé einungis um tímabundna niðursveiflu að kenna og að félagið muni blómstra á nýjan leik. Síðustu árin hefur félagið verið í nokkru samstarfi við Harmonikufélag Selfoss.














































