Hawaii-kvartett (1946-50)

Hawaii-kvartettinn

Hljómsveit sem bar nafnið Hawaii kvartett (Hawaii kvartettinn, Havai kvartett og fleiri svipuð nöfn) var starfrækt á síðari hluta fimmta áratugs síðustu aldar og naut töluverðra vinsælda á höfuðborgarsvæðinu þar sem hún lék á margvíslegum skemmtunum og dansleikjum, oft ásamt sönghópnum Öskubuskum.

Það mun hafa verið Hilmar Skagfield (sonur Sigurðar Skagfield söngvara) sem stofnaði sveitina reyndar sem tríó með þeim Ólafi Maríussyni gítarleikara og Trausta Thorberg Óskarssyni sem lék á rafmagnsgítar, sjálfur lék Hilmar á svokallaðan hawaii-gítar en hann mun hafa verið fyrstur Íslendinga til að leika á það hljóðfæri og smíðaði sinn fyrsta hawaii-gítar sjálfur. Fljótlega kom Ólafur Gaukur Þórhallsson gítarleikari í sveitina í stað Trausta og Eyþór Þorláksson bættist í hópinn og lék á bassa fyrst um sinn en þegar Ólafur Gaukur hætti haustið 1948 færði Eyþór sig yfir á gítarinn en Hallur Símonarson kom inn sem bassaleikari og þannig skipuð starfaði Hawaii kvartettinn til sumarsins 1950 þegar hún hætti störfum. Svavar Gests mun jafnframt hafa komið fram stöku sinnum með sveitinni sem víbrafónleikari.

Sveitin hafði á boðstólum heilmikið prógramm, þeir félagar lásu allir nótur og útsetti Ólafur Gaukur fjölmörg lög fyrir sveitina sem lék sem fyrr segir á skemmtunum af ýmsu tagi, hér má nefna revíusýningar, skólaskemmtanir, dansleiki og ýmislegt annað en auk þess lék sveitin margsinnis í útvarpssal.

Ólafur Maríusson gítarleikari mun hafa verið söngvari Hawaii kvartettsins en fjölmargir söngvarar komu fram með sveitinni meðan hún starfaði og er þekktastur þeirra líklega Haukur Morthens sem söng oft með henni, einnig má nefna Sigrúnu Jónsdóttur, Eddu Skagfield (systur Hilmars) og Soffíu Karlsdóttur leikkonu.