
Bríet á sviði Listasafns Íslands
Tónlistarhátíðin Iceland Airwaves er komin í fullan gang en hún var sett opinberlega í gær, fimmtudag – fyrstu viðburðirnir fóru þó fram á miðvikudaginn.
Veislan heldur áfram og meðal þess sem sjá má og heyra í dag og í kvöld má nefna Kira Kira og Heklu í Fríkirkjunni, Sigrúnu Stellu og Gróu í Gamla bíói, Axel Flóvent og Bombay bicycle club í Listasafni Íslands, Daniil og Skaar á IA center, Superjava og Rock paper sisters á Gauknum, Jazzygold og Elinborgu í Iðnó og Emmsjé Gauta og Kristinu Sesselju á Kex hostel svo aðeins fáein dæmi séu nefnd – auk þess er fjöldi viðburða á stöðum eins og Norræna húsinu, Hafnartorgi, 12 tónum, Lucky records og víðar um borgina.
Glatkistan hefur verið á ferðinni og hægt er að sjá nokkrar myndir frá miðviku- og fimmtudagskvöldinu á Facebook-síðu vefsíðunnar.














































