
Harrý og Heimir ásamt sögumanni sínum
Spæjaratvíeykið Harrý og Heimir hafa frá því undir lok níunda áratugar síðustu aldar sprottið upp á yfirborðið með reglulegum hætti, fyrst sem útvarpsleikrit en síðan á plötum, leiksviði og jafnvel kvikmynd.
Þeir Harrý Rögnvalds (Karl Ágúst Úlfsson) og Heimir Schnitzel (Sigurður Sigurjónsson) birtust fyrst ásamt sögumanni sínum (Erni Árnasyni) í tuttugu og fimm mínútna löngum örleikritum á útvarpsstöðinni Bylgjunni árið 1988 en þá voru gerðir ellefu sjálfstæðir þættir með þeim félögum þar sem snúið var út úr ímynd einkaspæjarans í anda gömlu útvarpsleikritanna við miklar vinsældir enda gekk húmor þeirra félaga út á útúrsnúninga ekki ósvipað og þeir höfðu gert á plötunni Sama og þegið fáeinum árum áður. Leikurinn var endurtekinn á Bylgjunni snemma árs 1993 þegar fjörutíu þættir voru framleiddir til viðbótar en þeir þættir mynduðu samfellu og gengu fram á vor – efnið þótti gríðarlega fyndið og landsmenn léku sér með frasa þeirra félaga í svakamálaleikritunum í mörg ár á eftir.
Þeir Harrý og Heimir féllu smám saman í gleymskunnar dá nema að einhverjir fyrirhyggjusamir einstaklingar höfðu tekið herlegheitin upp á band úr útvarpinu og komið því á tölvutækt form löngu síðar, það varð líklega kveikjan að því að þeir félagar voru endurvaktir af þeim Karli Ágústi, Sigurði og Erni þegar nokkuð var liðið á fyrsta áratug nýrrar aldar. Hugmyndin var reyndar þá að gefa út borðspil með þeim Harrý og Heimi en upptökurnar úr Bylgjuþáttunum voru látnar duga en þær komu út haustið 2008 og reyndust hafa elst ágætlega, alltént seldist platan sem bar heitið Með öðrum morðum ágætlega og tveimur árum síðar kom svo út önnur plata – Morð fyrir tvo. Þá hafði leiksýning með þeim félögum einnig verið sett á svið Borgarleikhússins (2009-10) og 2014 var kvikmynd þeirra félaga, Morð eru til alls fyrst frumsýnd.
Ekki er hægt að útiloka að þeir Harrý og Heimir eigi eftir að birtast síðar með einhverjum hætti.














































