
Gísli Rúnar og Árni Blandon sem Hattur og Fattur
Ólafur Haukur Símonarson rithöfundur er maðurinn á bak við þá fígúrurnar Hatt og Fatt en þeir urðu fyrst til sem hugmynd þegar hann bjó í Kaupmannahöfn í upphafi áttunda áratugar síðustu aldar. Haustið 1973 þegar hann var kominn heim til Íslands voru nokkrir stuttir sjónvarpsþættir með Hatti og Fatti framleiddir til að sýna í Stundinni okkar og voru Kjartan Ragnarsson og Árni Blandon þá í hlutverki þeirra. Þættirnir fóru svo í sýningu í janúar 1974 en ágreiningur milli Ólafs Hauks og Jóns Þórarinssonar þáverandi dagskrárstjóra Ríkissjónvarpsins varð til þess að minna varð úr verkefninu en til stóð og líklega voru ekki sýndir nema þrír þættir með þeim félögum. Þeir Hattur og Fattur náðu samt sem áður að slá í gegn hjá yngstu kynslóðinni en þar voru á ferð tveir ferðalangar frá ónefndum stað sem komu gagngert hingað til lands til að kynnast íslenskum börnum og fóru víða um höfuðborgarsvæðið í þeim tilgangi, þarna var í raun blandað saman götuleikhúsi og sjónvarpsþáttum með leik og söng en atriðin innihéldu heilmikla ádeilu m.a. á skólakerfið og ýttu jafnframt undir umhverfissjónarmið. Lög eins og Drullumsull og sullumbull, Það vantar spýtur og Hattur og Fattur voru í þessum þáttum og þau ásamt fleiri lögum eftir Ólaf Hauk komu svo út á tímamóta barnarplötunni Eniga meniga sem gefin var út í nafni Olgu Guðrúnar Árnadóttur haustið 1975 og þar slógu lögin í gegn.

Hattur, Fattur og Olga Guðrún
Fjórum árum síðar kom svo út plata með þeim Hatti og Fatti en sú bar titilinn Hattur & Fattur komnir á kreik og þar hafði Gísli Rúnar Jónsson tekið við hlutverki Kjartans Ragnarssonar en Árni Blandon var á sínum stað. Lög eins og Við erum lentir, Það er svo gaman að vera í skóla og Sundferð slógu í gegn en þar var líka eitt lag sem sungið var af höfundinum sjálfum Ólafi Hauki – Allur á iði sem einnig naut vinsælda. Þá var á plötunni jólalagið Jólagæsin sem enn heyrist margoft leikið kringum jólahátíðirnar, Olga Guðrún söng sem gestur á plötunni en Gunnar Þórðarson var í stóru hlutverki á henni reyndar eins og hann hafði verið á Eniga meniga plötunni. Platan hlaut ágæta dóma í Tímanum og Helgarpóstinum og þokkalega í Morgunblaðinu og Dagblaðinu. Steinar hf. sem gaf plötuna út hugsaði sér gott til glóðarinnar og auglýsti „Stóru karamellukeppnina“ þar sem þeir Hattur og Fattur voru í aðalhlutverki en reyndist ekki hafa fengið leyfi þeirra Gísla Rúnars og Árna til að nota persónurnar og myndir af þeim í auglýsingaskyni svo þeir sendu frá sér harðorða yfirlýsingu enda var þetta gegn þeirra vinnubrögðum.
Árið 1984 kom út bók eftir Ólaf Hauk en hún bar nafnið Hattur og Fattur bregða á leik en hana myndskreytti Sigrún Eldjárn en svo liðu mörg ár þar til heyrðist aftur af þeim félögum. Árið 1996 var plata þeirra endurútgefin á geisladisk og þremur árum síðar var söngleikurinn Hattur og Fattur – Nú er ég hissa! settur á svið í Loftkastalanum með þá Guðmund Inga Þorvaldsson og Felix Bergsson í aðalhlutverkum, plata kom út í tengslum við þá sýningu og annaðist Margrét Örnólfsdóttir þann þátt. Árið 2004 birtust þeir enn á ný, nú á leiksviði Möguleikhússins við Hlemm með leikritið Hattur, Fattur og Sigga sjoppuræningi en að þessu sinni voru Pétur Eggertz og Valur Freyr Einarsson í aðalhlutverkum. Fjölmargir leikarar hafa því túlkað Hatt og Fatt í gegnum tíðina. Söngleikir með Hatti og Fatti hafa einnig í nokkur skipti verið settir á svið í skólum landsins og ekki er loku fyrir skotið að meira eigi eftir að heyrast frá þeim í framtíðinni.














































