
Hartmann Guðmannsson
Hartmann Guðmannsson var harmonikkuleikari, ættaður úr Svarfaðardalnum en fluttist suður á höfuðborgarsvæðið og tók síðar virkan þátt í starfsemi Félags harmonikuunnenda í Reykjavík.
Hartmann Guðmundur Guðmannsson var fæddur vorið 1935 og kynntist harmonikkunni barn að aldri en hann eignaðist sína fyrstu nikku þrettán ára gamall og ekki löngu síðar var hann farinn að leika á hana á dansleikjum í sveitinni. Hann lék líkast til þó aldrei með hljómsveitum nyrðra.
Þegar hann fluttust suður til Reykjavíkur 1952 lagði hann hljóðfærið líklega að mestu á hilluna en þegar Félag harmonikuunnenda í Reykjavík (F.H.U.R.) var stofnað 1977 gekk hann til liðs við það og varð þar virkur félagi, lék með hljómsveit félagsins og hóf jafnframt að koma fram aftur opinberlega einn síns liðs með harmonikkuna.
Hartmann samdi sjálfur lög á nikkuna og tvívegis lék hann eigin lög á plötum Félags harmonikuunnenda en árið 1999 gaf hann sjálfur út þrettán laga plötu sem bar nafnið Sól við fjörðinn, þar leikur hann eigin lög á harmonikku en naut aðstoðar Karls Adolfssonar við útsetningar.
Hartmann lést síðsumars 2019.














































